Eignir Landsbanka kyrrsettar fyrir hryðjuverkalög

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sendi Landsbankanum bréf 3. október 2008 þar sem settar voru strangar kröfur um bindiskyldu og var erfið lausafjárstaða bankans gefin sem ástæða. Bréfið bar þá sakleysislegu yfirskrift „Fyrsta eftirlitstilkynning“, en í raun var um frystingu að ræða, fimm dögum áður en bresk stjórnvöld notuðu hryðjuverkalögin.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var í tilkynningunni vísað til laga um fjármálaþjónustu og markaði frá árinu 2000 og reglna eftirlitsins um ráðdeild, GENPRU, og sagt að á grundvelli þeirra hefði fjármálaeftirlitið ákveðið að setja Landsbankanum ákveðin skilyrði, sem tækju til útibús hans á Bretlandi. Landsbankinn þyrfti að eiga á bankareikningi á Bretlandi forða í reiðufé, sem samsvaraði ekki minna en 10% af innistæðum á óbundnum reikningum hjá bankanum í breskum pundum.

Peningaforðann á þessum reikningum þyrfti að hækka upp í ekki minna en 20% af innistæðum strax 6. október. Á þessum tíma var veruleg þurrð á lausafjármörkuðum og nánast útilokað að bankinn gæti útvegað slíka fjárhæð með svo skömmum fyrirvara. Tekið er fram að bankareikningurinn eigi að vera hjá breska seðlabankanum, Englandsbanka, eða reikningur sem FSA veiti skriflegt leyfi fyrir.

Meðferð eigna takmörkuð

Að auki segir að Landsbankinn verði þegar að stofna aðskilinn vörslureikning hjá breska seðlabankanum eða hjá annarri stofnun, sem fjármálaeftirlitið samþykki.

Í þessum fyrirmælum breska fjármálaeftirlitsins frá 3. október segir jafnframt að þau taki til peningaforða bankans og allra eigna hans á Bretlandi frá og með deginum, sem þau taki gildi. Sérstakar takmarkanir eru settar að því leyti að bankinn megi ekki gera neinar ráðstafanir varðandi þessar eignir ef þær gætu leitt til þess að þær flyttust frá Bretlandi eða leiddu til þess að tekið yrði veð í þeim, þær veðsettar eða hefðu svipaðar fjárhagslegar afleiðingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka