Samtök atvinnulífsins telja misráðið að bæta við nýju skattþrepi í virðisaukaskattkerfinu. Það auki flækjustig og hættu á undanskotum. Telja samtökin eðlilegra ð halda tveimur virðisaukaskattsþrepum en hækka neðra þrepið úr 7% í t.d. 10% og hærra þrepið í rúm 25%. Sú breyting hefði svipuð tekjuskiptingaráhrif og það að bæta við nýju þrepi en á móti væri einfaldara, ódýrara og skilvirkara skattkerfi varðveitt.
Samtök atvinnulífsins segja, að margir telji að lækkun virðisaukaskatts á matvæli feli í sér lífskjarajöfnun þrátt fyrir að opinber gögn sýni fram á allt annað. Með lækkun svokallaðs „matarskatts" árið 2007 hafi verið ráðist í eina dýrustu og óskilvirkustu aðferð sem hægt sé að hugsa sér til lífskjarajöfnunar. Lægra þrep virðisaukaskatts var þá lækkað úr 14% í 7% en það jákvæða við þá breytingu sem þá var gerð var að öll matvæli og drykkjarvörur voru skattlagðar í sama þrepi.
Áætlað er að hver prósenta í neðra þrepi virðisaukaskatts skili ríkissjóði nú 1,5 milljarði króna í skatta og hefur því þessi skattalækkun numið 10,5 milljörðum króna á núvirði. Segja Samtök atvinnulífsins, að áætla megi að ríflega þriðjungur upphæðarinnar hafi runnið til þess fjórðungs heimila sem hafði hæstar tekjurnar og innan við fimmtungur til tekjulægsta fjórðungsins.
Því hafi einnig verið haldið á lofti, m.a. á Alþingi, að ekki megi hækka neðra þrep virðisaukaskattsins vegna neikvæðra áhrif á fólk með lágar tekjur. Áformað sé þess í stað að bæta við þriðja virðisaukaskattsþrepinu, 14.% þann 1. mars nk, og hækka efsta þrep virðisaukaskattsins í 25% um áramót.