Spjöll voru unnin á sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í nótt. Málningu var slett á veggi og þá var m.a. úðað á eftirlitsmyndavél, rúður og skjaldamerki Íslands. Hópur aðgerðasinna hefur lýst verknaðinum á hendur sér. Sendiherra Íslands í Danmörku segir að málið sé nú í höndum dönsku lögreglunnar.
Svavar Gestsson sendiherra sagði í samtali við mbl.is að starfsmenn sendiráðsins hefðu tekið eftir þessu er þeir mættu til vinnu í morgun. „Síðan voru gerðar viðeigandi ráðstafanir gagnvart danska utanríkisráðuneytinu, lögreglunni og öðrum. Síðan er þetta hreinsað.“
Aðspurður sagði Svavar að spellvirkjarnir hefðu ekki farið inn í sendiráðið. Engar rúður hefðu verið brotnar eða annað þvíumlíkt. „Það var bara spreyjað á glugga og veggi,“ segir hann. Þá segist hann ekki hafa hugmynd hver eða hverjir hafi verið þarna á ferð.
Svipað atvik átti sér stað fyrir um tveimur til þremur árum að sögn Svavars. „Við vitum ekkert um þetta og menn fundu ekki út úr þessu síðast. Þetta er núna í höndum dönsku lögreglunnar að leita skýringa á þessu,“ segir Svavar og bætir við að dagurinn hafi gengið sinn vanagang í sendiráðinu.
Fram kemur á vefsíðunni Indymedia Danmark að spjöllin á sendiráðinu hafi verið unnin snemma í morgun. Þar segir jafnframt að íslensk stjórnvöld stæri sig af umhverfisvænni orku. Spellvirkjarnir mótmæla því og segja að hugtakið „græn orka“sé ekki til, sér í lagi ef hún er notuð til að knýja þungaiðnað.
Fram kemur í fréttinni á vef Indymedia að Íslendingum verði refsað fyrir misgjörðir sínar.
Komið hefur til átaka á milli mótmælenda og lögreglu í Kaupmannahöfn, þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer nú fram. Ekki liggur fyrir hvort skemmdarverkin sem voru unnin á sendiráðinu tengist þeim hópum sem hafa staðið fyrir mótmælum í borginni.