Vilja undirbúa breytingar á skattumdæmum betur

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði þar sem skatttstofan er m.a. til húsa.
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði þar sem skatttstofan er m.a. til húsa. mynd/bb.is

Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í efnahags- og skattanefnd Alþingis segja líklegt, að kostnaður við að breyta landinu í eitt skattumdæmi muni auka útgjöld ríkissjóðs á næsta ári. Ríkisstjórnin áætlar að spara 140 milljónir króna með breytingunni árið 2010. 

Samkvæmt stjórnarfrumvarpi, sem er til meðferðar á Alþingi,  verður landið gert að einu skattumdæmi undir yfirstjórn embættis ríkisskattstjóra. Með því er stefnt að aukinni skilvirkni í störfum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í efnahags- og skattanefnd vilja vísa frumvarpinu frá og segjast ekki fallast  á þetta nema vandað sé betur til verka. Benda þeir m.a. á, að það geti beinlínis reynst hættulegt að fara  í umfangsmiklar breytingar á skattumdæmum samhliða stærstu skattkerfisbreytingu sem gerð hafi verið hér á landi í marga áratugi.

Þá ætti að  vinna málið í anda byggðastefnu stjórnvalda í stað þess að leggja fram tillögur sem í raun munu leggja niður skattstofur, m.a. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á Siglufirði. Í þessu felist ómakleg aðför að landsbyggðinni þar sem engar ráðningar verði í stað þeirra starfa sem losna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert