Dómurinn reiðarslag fyrir öryrkja

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Við erum í algjöru sjokki, þetta er reiðarslag," segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Í dag féll dómur í Hæstarétti Íslands, þess efnis að Lífeyrissjóðurinn Gildi hefði mátt skerða lífeyrisgreiðslur til öryrkja, í samræmi við þær greiðslur sem hann fékk úr almannatryggingakerfinu. Niðurstaða dómsins hefur áhrif á þúsundir öryrkja hér á landi.

Guðmundur segir að leitað verði hófanna um að koma málinu fyrir mannréttindadómstól Evrópu. „Það má segja að lífeyrissjóðirnir séu búnir að fá skotleyfi á öryrkja," bætir hann við. Lengi sé búið að benda á óréttlætið sem felist í því að lífeyrissjóðir skerði greiðslur sínar með þessum hætti.

Guðmundur lýsir þessu sem víxlverkun á milli kerfanna tveggja. Fyrst lækki lífeyrissjóðurinn sína greiðslu. Þá hækki greiðslan úr almannatryggingunum eitthvað, en ekki sem lækkuninni nemur. Þá lækki lífeyrissjóðurinn sína greiðslu enn meira. Þetta endi oftar en ekki með því að ekkert komi frá sjóðnum.

Hann bendir ennfremur á að einn dómari skilaði sératkvæði í málinu. Guðmundur segir þennan dómara, Viðar Má Matthíasson, þann eina í dómnum sem hafi sérstaklega rannsakað mál af þessu tagi áður. Niðurstaða Viðars var sú að Gildi hefði ekki sýnt fram á að skilyrði væru fyrir hendi til að breyta lífeyrisgreiðslunum með framangreindum hætti.

Guðmundur segir að ef alþingismenn þyrðu að standa uppi í hárinu á lífeyrissjóðunum væru þeir fyrir löngu búnir að taka á þessu máli. Því þori þeir hins vegar ekki og lífeyrissjóðirnir hafi eitthvert óskiljanlegt hreðjatak á löggjafarvaldinu. „Það er ansi hart ef það sama er í gangi gagnvart dómstólunum," segir Guðmundur.

Samkvæmt framansögðu tel ég að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði hafi verið fyrir hendi til að ákveða og framkvæma þær breytingar á greiðslu örorkulífeyris til stefndu sem um ræðir. Tel ég af þessum ástæðum að niðurstaða héraðsdóms eigi að vera óröskuð. Ég tel einnig að áfrýjandi eigi að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert