„Hvar liggja siðferðismörk ráðherra?“

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir Heiðar Kristjánsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, beindi þeirri fyrirspurn til Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, hvort hún teldi eðlilegt að veita fyrirtæki sem er í 40% eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar svo mikla viðskiptafyrirgreiðslu sem ætlað sé að gera með stuðningi ríkisins vegna fyrirhugaðs gagnvers á Vallarheiði.

„Telur ráðherra ekki  að Björgólfur Thor Björgólfsson skili fyrst þýfinu  sem hvarf af Icesave-reikningunum sem hann ber beina ábyrgð á?“ spurði Birgitta og vildi jafnframt vita hvar siðferðislegu mörk ráðherra lægju. Loks spurði hún hvort hver sem væri, svo fremi sem viðkomandi ætti peninga og vildi fjárfesta á Íslandi, gæti vænst stuðnings frá iðnaðarráðuneytinu.

„Ég get svo sannarlega komið hér upp og varið mig. Mér þykir hálfógeðfellt hvernig háttvirtur þingmaður talar hér um siðferðismörk, því það sem þetta mál snýst um er mjög einfalt,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.

Í framhaldinu útskýrði hún að fyrir hrun árið 2007 hafi verið til fyrirtæki, sem hafi verið dótturfélag nokkurra erlendra aðila í erlendri eigu, sem ætli að stofna hérlendis gagnaver.

„Hið opinbera fór strax í viðræður við þessa aðila til þess að ryðja þessari fjárfestingu braut. Nú hefur það gerst í millitíðinni að það hefur orðið hrun á íslenskum bankamarkaði og einstaklingar sem eiga þarna hlut að máli, minnihluta í fyrirtækinu, að þeir eru þarna enn inni,“ sagði Katrín og benti á að fyrirhugað væru hlutafjárútboð sem þynna myndi minnihlutaeign Björgólfs í fyrirtækinu.

„Það sem þetta verkefni snýst um er einfaldlega það að núna stöndum við frammi fyrir því hvort við ætlum að láta alla fjárfestinguna fara forgörðum út af fortíð og sögu eins minnihlutaeiganda í þessu fyrirtæki eða ætlum við að stuðla að því að það geti gerst að það komi nýtt fjármagn inn í þetta verkefni og þessi aðili sem hér um ræðir verði þynntur út með því nýja fjármagni?“

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert