Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, verður ekki yfirmaður embættis hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem berst gegn mansali. Tilkynnt verður um þetta innan ÖSE með formlegum hætti í Vín í Austurríki í dag, þar sem stofnunin hefur aðsetur.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfesti þetta í samtali við mbl.is, en ráðuneytið studdi umsókn Ingibjargar Sólrúnar.
Ítalskur sérfræðingur í mansali varð fyrir valinu hjá ÖSE, en heimildir mbl.is herma að valið hafi staðið á milli hennar og Ingibjargar Sólrúnar.
Fráfarandi yfirmaður stofnunarinnar er Eva Biaudet, fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra Finnlands.