Landið eitt skattumdæmi

Lilja Mósesdóttir og Guðbjartur Hannesson
Lilja Mósesdóttir og Guðbjartur Hannesson Kristinn Ingvarsson

Landið verður eitt skattumdæmi og fimm skattstofur reknar á landinu nái frumvarp til laga um tekjuskatt fram að ganga. Ráðgert er að ein skattstofa verði á höfuðborgarsvæðinu og fjórar á landsbyggðinni, þ.e. á Vesturlandi/Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi.

Lilja Mósesdóttir, formanns efnahags- og skattanefndar, gerði grein fyrir áliti meirihluta nefndarinnar á þingi fyrr í dag. Í máli hennar kom fram að megintilgangur breytinganna væri að færa rekstrarkostnað skattkerfisins til samræmis við markmið fjárlagafrumvarpsins og jafnframt að auka skilvirkni í störfum þess.

Lagði hún áherslu á að þessum skipulagsbreytingum væri  ekki ætlað að leiða til fækkunar starfa með uppsögnum, skerts þjónustustigs eða lakari stöðu landsbyggðarinnar. Hins vegar mætti búast við að störf verði endurskilgreind og verkefni sameinuð til að unnt verði að ná rekstrarhagræðingu. Það geti orðið til þess að starfseiningum fækki á næstu árum.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði áhyggjuefni að á sama tíma og verið væri að gera kerfisbreytingar á skattakerfinu þá ætti um leið að fækka skattstofum á landinu. Hann spurði Lilju hvort ráðlegt væri að fara í þessar tvær breytingar samtímis.

Lilja svaraði því til að hún væri ósammála því að fyrirhuguð breyting á skattkerfinu fæli í sér kerfisbreytingu. Vissulega væri þetta mikil breyting, en hins vegar væri þetta aðeins hluti af komandi kerfisbreytingum.


Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson Valdís Þórðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert