Ögmundur: Tafir á Alþingi þjóna engum tilgangi

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, fjallar um ýmsar hliðar Icesave á vef sínum. Þar kemur fram að þingmaðurinn telji að frekari tafir á afgreiðslu málsins á Alþingi þjóni engum tilgangi. Segir hann að þingmenn hafa komist -  flestir, ef ekki allir - að niðurstöðu í málinu. Þorri stjórnarmeirihluta er staðráðinn í að samþykkja og stjórnarandstaða að hafna.

Alþingi ófært að komast að sameiginlegri lausn

Segir Ögmundur að það sé staðreynd að Alþingi hefur reynst ófært um að koma sameinað að lausn vandans, bæði vegna þess hvernig að málinu hefur verið staðið af hálfu stjórnarmeirihlutans og einnig vegna hins að stjórnarandstöðunni hefur ekki tekist að rísa yfir sjálfa sig og taka á málinu óháð flokkspólitískum hagsmunum. Fjölmiðlafólk hefur því miður alltof margt skipst í fylkingar eftir slíkum landamærum, skrifar hann á vef sinn.

Áhöld um lagalega greiðsluskyldu

Ögmundur segir að áhöld séu um lagalega greiðsluskyldu Íslands gagnvart breska og hollenska ríkinu. Breska og hollenska ríkið ásamt stuðningsliði í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu meina okkur að leita réttar okkar eftir reglum réttarríkis eða það sem réttara er: Breska og hollenska ríkið neita að leita réttar síns gagnvart íslenskum skattborgurum. Í þessu efni njóta breska og hollenska ríkið stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.

Óvissa sé um verðmæti eigna Landsbankans og þar af leiðandi hve mikið fellur á íslenska skattgreiðendur. Þetta kemur ekki í ljós fyrr en á reynir.

Hafa ekki lengur efni á nauðþurftum

Það sé staðreynd að greiðsla Icesave skuldanna verður erfið þótt ekki sé nema vegna vaxtakostnaðar.„ Það má hins vegar vel vera að þetta verði okkur gerlegt. Þannig sjáum við í spám Seðlabanka Íslands að við gætum orðið aflögufær um gjaldeyri því gert er ráð fyrir meiri afgangi í vöruskiptum við útlönd á komandi áratug en dæmi eru um í lýðveldissögunni.

En hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að Íslendingar hætta að hafa efni á innkaupum erlendis frá í þeim mæli sem verið hefur, ekki bara bílum heldur hugsanlega einnig sneiðmyndatækjum á sjúkrahúsin, lyfjum og öðrum nauðþurftum velferðarsamfélagsins. Það er eitt að ráða við viðfangsefnið, annað á hvaða forsendum það er gert, hverjar afleiðingarnar eru í lífskjörum þjóðarinnar."

Ögmundur segir það staðreyn að í málflutningi sínum horfi fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrst og fremst á greiðslumöguleika íslenska efnahagskerfisins en ekki til afleiðinga fyrir samfélag og auðlindir sem við búum yfir.

Allt rætt undir rós og með bros á vör

„Allt er þetta rætt undir rós og með bros á vör. Eða hvað skyldi Flannagan, fulltrúi AGS, hafa átt við í Kastljósi Sjónvarpsins þegar hann segir Íslendinga hafa "geysilega aðlögunarmöguleika" til að borga himinháar skuldir sínar? Selja fiskikvótana, Landsvirkjun, OR, Gvendarbrunnana, virkja Gullfoss, Goðafoss, Jökulárnar í Skagafirði, Þjórsá, Landmannalaugar, Geysi? Spurt er í alvöru? Þetta er það sem Ísland á verðmætast."

Sjá nánar á vef Ögmundar Jónassonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert