Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í gær að súrnun hafanna væri dulinn vandi innan loftslagsvandans, sem ógnaði lífi í höfunum og afkomu ríkja sem byggðu á lífríki hafsins. Svandís var meðal framsögumanna á fundi sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á hafið, sem var stýrt af Kaj Leo Johannessen, lögmanni Færeyja. Auk þeirra héldu erindi á fundinum ráðherrar frá Færeyjum og Noregi og fulltrúar frá Indónesíu, Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. (FAO) o.fl.
Svandís benti á þá staðreynd að höfin gleypa stóran hluta þess koldíoxíðs sem losað er á heimsvísu. Geta þeirra til þess færi þó þverrandi vegna aukinnar mettunar koldíoxíðs í höfunum, sem veldur súrnun. Þekking manna á þeim vanda hefur farið hratt vaxandi á undanförnum árum, sem og áhyggjur af hugsanlegum afleiðingum. Eyðing kóralrifja hefur þar verið mest í sviðsljósinu, en þau eiga mjög undir högg að sækja vegna hlýnunar sjávar og fleiri þátta; ef súrnun sjávar heldur áfram óhindrað óttast menn að kóralrifin hætti að geta vaxið og deyi fyrir lok þessarar aldar. Súrnun sjávar veldur líka öðrum lífverutegundum sem mynda skeljar eða stoðgrind erfiðleikum, s.s. skeldýrum og ýmsum þörungum. Talið er að utan hitabeltisins verði vandinn vegna súrnunar mestur á nyrstu og syðstu hafsvæðum jarðar.
Umhverfisráðherra sagði að þótt dregin væri upp dökk mynd af afleiðingum loftslagsbreytinga á höfin mætti ekki einblína eingöngu á vandann, heldur líka á lausnir. Ríkjum heims hefði auðnast að draga úr mengun hafsins með alþjóðlegum samningum og svæðisbundinni samvinnu. Mörg ríki reyndu að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins með ábyrgri fiskveiðistjórn og öðrum aðgerðum. Íslendingar hefðu lifað af gæðum hafsins í 1100 ár og ætlaðu sér að gera það áfram um langa framtíð. Ógnir við lífríki sjávar væri ógnun við efnahag Íslands og samfélag. Ísland væri reiðubúið að taka höndum saman við önnur ríki sem vildu benda á áhrif loftslagsbreytinga á höfin og vildu leysa loftslagsvandann.