„Ég tek undir það að starf lögreglu er vandasamt og það hefur mætt mikið á lögreglu allt þetta ár. Ég tel að lögreglan hafi staðið sig með mikilli prýði í þeim atburðum sem urðu,“ sagði Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, og svaraði þar með spurningu frá Ólöfu Nordal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um afstöðu hennar til löggæslunnar í landinu.
Ólöf vildi líka vita hver afstaða dómsmálaráðherra væri til skoðunar heilbrigðisráðherra til lögreglunnar og þeirra atburða sem urðu í janúar sl.
„Hæstvirtur heilbrigðisráðherra hefur tjáð sig töluvert um framgöngu lögreglunnar. Meðan hún var ennþá óbreyttur þingmaður leit hún á aðgerðir lögreglunnar til að verja og halda uppi öryggi í landinu sem hefndaraðgerðir,“ sagði Ólöf og hvað dómsmálaráðherra fyndist um þessi ummæli og eins hvort hún teldi löggæsluna njóta óskorað stuðnings ríkisstjórnarinnar.
Ragna sagðist alls ekki sammála því að um hefndaraðgerðir hafi verið að ræða. „Hvað varðar ummæli einstakra ráðherra um lögreglu hef ég svo sem ekkert um þau að segja, þeir verða að svara fyrir sín ummæli sjálfir,“ sagði Ragna og tók fram að sjálf væri hún þeirrar skoðunar að lögreglan hefði afar vandasamt starf með höndum og því þurfi að gæta þess vel í hagræðingu og niðurskurði að ganga ekki að kjarnastarfsemi lögreglu þannig að hún geti eftir sem áður sinnt sinni grunnþjónustu.
Hún ítrekaði þá skoðun sína að lögreglumenn hefðu átt að fá heiðursmerki fyrir sína framgöngu síðasta vetur. „Vegna þess að þeir stóðu sig ákaflega vel við mjög óvenjulegar aðstæður og ég tel að það hefði ekki verið hægt að gera þetta betur.“