Úrræði fyrir 2.400 ungmenni

Kynnt voru úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk í dag. Unga …
Kynnt voru úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk í dag. Unga fólkið á myndinni tengist ekki efni fréttarinnar. mbl.is/Rax

 Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kynnti nú í hádeginu nýja áætlun stjórnvalda um að finna úrræði fyrir ungt fólk sem að glímir við langtímaatvinnuleysi. Kostnaður við verkefnið er áætlaður 1.300 milljónir króna á næsta ári og er þar af helmingur talinn fást með sparnaði í atvinnuleysistryggingum.

Um 2.700 ungmenni á aldrinum 16-24 ára eru án vinnu um þessar mundir og er úrræðunum sem að Árni Páll kynnti í dag ætlað að aðstoða um 2.400 þeirra. Búist er við að einn af hverjum níu, eða um 300 ungmenni, muni fá vinnu og því ekki þurfa á sérstökum úrræðum að halda.    

Athygli vekur hversu hátt hlutfall ungmenna sem aðeins hefur lokið grunnskólanámi er án atvinnu. Fram kemur í atvinnuleysisskrá að um helmingur atvinnulausra hafa látið nægja að ljúka grunnskóla en í hópi atvinnulausra undir þrítugu er hlutfallið tæp 70%. Hlutfallið er enn hærra á meðal þeirra ungmenna sem hafa lengi verið utan vinnumarkaðarins eða 73%.

Líði ekki meira en þrír mánuðir

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett sér það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verði atvinnulaus þar til honum er boðið er starf.

Áætlað er að þessu markmiði verði náð gagnvart fólki sem er yngra en 25 ára fyrir 1. apríl 2010 og fyrir 1. júlí 2010 gagnvart þeim sem eru eldri en 25 ára.

Til að ná fyrrnefndum markmiðum hefur verið gerð áætlun um sköpun nýrra tækifæra fyrir ungt fólk án atvinnu sem miðast við að árið 2010 verði komið á fót um 2.400 mismunandi úrræðum:

A) Allt að 450 ný námstækifæri í framhaldsskólum landsins fyrir ungt fólk án atvinnu.

B) Allt að 700 ný námstækifæri fyrir fólk án atvinnu til náms á vegum símenntunarstöðva og til aðfararnáms að frumgreinadeildum.

C) Allt að 450 starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni á vegum félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra.

D) Allt að 400 sjálfboðastörf.

E) Allt að 400 ný pláss á vinnustofum ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

Árni Páll segir mikilvægt að auka atvinnu- og menntunarúrræði fyrir …
Árni Páll segir mikilvægt að auka atvinnu- og menntunarúrræði fyrir ungt fólk. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert