Fulltrúar Neytendastofu fóru nýverið í eftirlitsferð um Kringluna, Smáralind og miðbæinn til að kanna verðmerkingar í verslunum og gluggum þeirra. Reyndist verðmerkingum hafa hrakað í verslunarmiðstöðvunum og var verðmerkingum í sýningargluggum ábótavant víða í miðbænum.
Í Kringlunni og Smáralind voru verðmerkingar í sýningargluggum ívið skárri en í miðbæ Reykjavíkur, en hafði þó hrakað mikið frá könnun sem gerð var í vor.
Í Kringlunni var farið í 102 verslanir og voru 77 af þeim með sýningarglugga. Var verðmerkingum ábótavant eða þær ekki til staðar hjá 28% þeirra verslana sem voru með sýningarglugga. Þetta er mikil afturför frá fyrri könnun en þá vantaði upp á verðmerkingar í glugga hjá 13% verslana.
Smáralind var með svipaðar tölur í þessari könnun, farið var í 68 verslanir þar af voru 54 með sýningarglugga. Vantaði upp á verðmerkingar í glugga hjá 27% af þeim verslunum sem eru með sýningarglugga, samanborið við 13% í fyrri könnun. Eins og í miðbænum báru margir verslunareigendur fyrir sig að það væri nýbúið að skipta um gluggaútstillingu, en sú afsökun dugar skammt þar sem ekki á að taka langan tíma að lagfæra verðmerkingar í sýningargluggum og best væri að gera það um leið og stillt er út nýjum vörum, að því er segir á vef Neytendastofu.
Verðmerkingar inni í verslunum voru hins vegar í lagi hjá flestum, í Kringlunni voru 96 verslanir af 102 með verðmerkingar í lagi eða viðunandi en í Smáralind var ástandið enn betra en þar voru 66 verslanir af 68 með verðmerkingar í lagi eða viðunandi. Í vor var hinsvegar einungis sett út á verðmerkingar í einni verslun á hvorum stað svo enn er rúm til að bæta sig.
Farið var í 152 verslanir í miðbænum og af þeim voru 138 með sýningarglugga fyrir vörur sínar.
Í miðbænum voru verðmerkingar svipaðar og í könnun sem gerð var í vor. Aðeins tvær verslanir af þeim 152 sem voru skoðaðar voru beðnar að laga verðmerkingar hjá sér, Gull og silfur Laugavegi 52 og Guðbrandur Jezorski gullsmiður Laugavegi 48, á báðum stöðum var verðmerkingum inni í verslun ábótavant og óverðmerkt í glugga.
„Þrátt fyrir góðar verðmerkingar inni í flestum verslunum, var allt önnur staða á verðmerkingum í sýningargluggum. Líkt og í vor var verðmerkingum í glugga ábótavant eða þær ekki til staðar í allt of mörgum verslunum eða 42%, þar af voru 32% eða 44 verslanir með óverðmerkt í gluggum sínum.
Greinilegt er að verslunareigendur á þessu
svæði verða að fara að taka sig á í þessum málum, ástandið er alls ekki
nógu gott. Það má taka það fram að í mörgum tilfellum var nýlega búið
að skipta um útstillingu í glugga verslana en þó er augljóst að
verslunareigendur leggja ekki áherslu á að verðmerkja vörur á sýnilegan
hátt um leið og það er gert. Úr þessu verða þeir að bæta og fá 58
verslanir áminningu um að bæta verðmerkingar í sýningarglugga," að því er fram kemur á vef Neytendastofu.