Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, gerði alvarlegrar athugasemdir við þau áform ríkisstjórnarinnar að gera landið að einu skattumdæmi á Alþingi í dag. Sagði hann mjög takmarkað samráð hafa verið haft við starfsmenn á skattstofum vítt og breitt um landið, sem væri miður þar sem mikil óvissa væri um framtíð starf í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Siglufirði nái lögin fram að ganga. Hann gagnrýndi framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og lagði til að málinu yrði vísað aftur til hennar.
Gagnrýndi hann það hversu seint skattalagafrumvörpin séu fram komin eða aðeins tveimur vikum fyrir áramót og vísaði þar til breyting á skattabreytingum vegna nýsköpunar, auknar skatttekjur ríkissjóðs, virðisaukaskatt og skatta fyrirtækja og heimila.
„Þegar menn ráðast í slíkar grundvallarbreytingar með stuttum fyrirvara sem raun ber vitni þá kallar slíkt á hörð viðbrögð okkar í minnihlutanum hér á Alþingi. Því hér er verið að mæla fyrir því að breyta íslensku skattkerfi og íslensku samfélagi í grundvallaratriðum og slíkt gerir Alþingi ekki á nokkrum virkum dögum. Slíkt er ekki sæmandi Alþingi Íslendinga og slíkt er ekki íslenskum almenningi bjóðandi,“ sagði Birkir Jón og krafðist þess að lagafrumvarpinu yrði vísað frá.
Í framhaldinu gagnrýndi hann samráðsleysi meirihlutans við minnihlutann. „Í ljósi samráðsleysisins er ræðustóll Alþingis eini vettvangur okkur hér í minnihlutanum til þess að reyna að hafa áhrif á framgang mála. Og það er kannski þess vegna, í ljósi samráðsleysisins, sem umræður geta oft verið lengri og stundum mun lengri en efni standa til ef annað verklag hefði verið viðhaft í mikilvægum málum,“ sagði Birkir Jón krafðist þess að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari úrlausnar.
Undir þetta tók Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Sagði hann ljóst að sameining skattumdæma gæti í sjálfu sér verið eðlileg og skynsöm þar sem hún geti sparað fé til framtíðar ef vel verði á haldið.
„Allt væri þetta gott og gilt ef við værum að ræða þetta með góðum fyrirvara þannig að starfsfólk geti byrjað að undirbúa sig fyrir þessar breytingar í lífi sínu að fara að þjóna nýjum herra. En það vill svo til að í dag eru fimmtán dagar til áramóta og þá eiga þessu ósköp að dynja yfir,“ sagði Pétur og gagnrýndi það að samtímis því að gera breytingar á skattstofum væri verið að innleiða gríðarlegar skattkerfisbreytingar.
„Ég er ansi hræddur um að þarna séu menn að stefna í kaos. Að það stefni í það að skattstofurnar ráði ekki við þetta jafnframt því að starfsfólkið er í uppnámi af því að það á að fara að skipta um starf og starfsvettvang. Þannig að ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við þetta, enda leggur minnihlutinn til að málið verði tekið af dagskrá og vísað til ríkisstjórnarinnar með þeim rökum að þetta sé ekki tímabært núna,“ sagði Pétur.
Tók hann fram að ríkisstjórnin gæti að ári lagt málið fram að nýju. „Þá getur hún í rólegheitum þegar skattkerfið er búið að kyngja þessum skattkerfisbreytingum, ef það kyngir því yfirleitt, unnið þetta í rólegheitunum og kannski komið með frumvarpið pínulítið fyrr inn í Alþingi en þremur vikum fyrir áramót.“