Ánægðir ferðamenn í Reykjavík

Alls höfðu 91% erlendra ferðamanna í Reykjavík góða eða frábæra reynslu af borginni á liðnu sumri. 94% aðspurðra sögðust einnig myndu mæla með Reykjavík við aðra.

Segir Höfuðborgarstofa, að þetta sé betri árangur en nokkru sinni, samanborið við kannanir síðustu sumra en kannanir hófust árið 2004.

Þegar spurt er um þá afþreyingu sem gestir Reykjavíkur nýta sér kemur í ljós að 70% fóru á veitingahús og 57% versluðu, sem er með því hærra sem hefur mælst. 40% skoðuðu söfn. Þá fóru 15% fóru í dagsferð um Reykjavík og 34% í dagsferð frá Reykjavík. Hefur þetta hlutfall aldrei mælst hærra.

Í könnuninni voru settar fram nokkrar fullyrðingar sem gestirnir lögðu mat á. Í ljós kom að 91% voru sammála þeirri fullyrðingu að Reykjavík sé örugg borg, 86% telja að Reykjavík sé hrein borg og 76% voru sammála því að Reykjavík sé skapandi borg. Hafa þessar tölur aldrei mælst hærri yfir sumartímann.

Þá hefur aldrei hefur hærra hlutfall sumargesta verið sammála þeirri fullyrðingu, að í Reykjavík fáist mikið fyrir peninginn, eða 46%. Segir Höfuðborgarstofa, að fullvíst megi telja að veiking krónunnar árið 2008 og 2009 valdi þar mestu. Einnig megi leiða að því líkum, að almenn ánægja gesta og aukin aðsókn í afþreyingu tengist að einhverju leyti hagstæðu gengi krónunnar fyrir útlendinga.

Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar gerðu könnunkna fyrir Höfuðborgarstofu síðastliðið sumar, frá júní til ágúst og var úrtakið rúmlega 2000 erlendir ferðamenn sem voru á leið úr landi í Leifsstöð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka