Borgin úthlutar úr forvarnasjóði

Frá úthlutun úr forvarnasjóði í dag.
Frá úthlutun úr forvarnasjóði í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri úthlutaði í dag styrkjum úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar til ellefu verkefna og nemur heildarupphæðin um níu milljónum króna. Að þessu sinni bárust alls 57 umsóknir um styrki úr sjóðnum.

Verkefnin sem styrkt eru að þessu sinni eru fjölbreytt og má þar nefna skíðakennslu fyrir fatlaða, lestrarbók um jákvæða og örugga netnotkun, námskeið fyrir einhverf börn og unglinga og náttúruleikvöllur við Norræna húsið með aðgengi fyrir fatlaða, svo nokkur séu nefnd.

Séu önnur verkefni nefnd má nefna að Austurbæjarskóli mun í samvinnu við Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða halda gítar- og samspilsnámskeið í Austurbæjarskóla m.a. fyrir unglinga sem orðið hafa fyrir félagslegum mótbyr bæði í skólanum og almennt í samfélaginu. Námskeiðinu er ætlað að efla þroska og samstarfshæfileika. Meðal leiðbeinenda eru liðsmenn hljómsveitarinnar Retro Stefson sem eru jafnframt gamlir nemendur skólans. Þá fékk Hrund Þórarinsdóttir styrk vegna verkefnisins Fræðsla fyrir seinfæra foreldra. Haldin verða námskeið fyrir foreldra sem eiga erfitt með að nýta sér hefðbundna foreldrafræðsla en námskeiðin munu byggja á niðurstöðum rannsókna dr. Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur um seinfæra foreldra og fjölskyldustuðning.

,,Það er ekki einungis verkefni Reykjavíkurborgar að tryggja velferð heldur er það samhent átak allra aðila, einstaklinga og félagasamtaka. Með forvarna- og framfarasjóðnum er Reykjavíkurborg að hvetja til frumkvæðis og samvinnu í þágu betra mannlífs - enda er mestur auður hverrar borgar fólginn í fólkinu sem hana byggir," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir þegar styrkjunum var úthlutað í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert