Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði hefur ekki áhyggjur af fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að eigið fé bæjarins sé neikvætt. Lúðvík segir að endurmat á eignum bæjarins fari nú fram sem muni breyta þessari stöðu. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir vanda bæjarins fyrst og fremst snúast um skort á rekstrarfé.