Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á varakröfu Fjárfestingarfélagsins Gaums um að úrskurður yfirskattanefndar verði að hluta felldur úr gildi og að í stað tæplega 670 milljóna króna tekja vegna sölu á eignarhluta í Bónus árið 1998 skuli Gaumur tekjufæra 175 milljónir króna.
Gaumur krafðist þess að aðallega að tekjufærslan yrði felld niður. Þá krafðist Gaumur þess einnig, að tekjuviðbót á árinu 2001 að fjárhæð rúmlega 1,2 milljarðar króna vegna sölu á hlutabréfum í breska félaginu Arcadia yrði felld niður eða lækkuð en á það var ekki fallist.
Málið var höfðað vegna úrskurðar ríkisskattstjóra árið 2004, sem endurákvarðaði opinber gjöld Gaums fyrir árin 1999 til 2003 á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gaumur kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar, sem staðfesti hann árið 2007. Gaumur höfðaði þá mál vegna tveggja liða.
Annað þeirra varðaði verðmat á 25% eignarhluta í Bónus, sem látinn var í skiptum ásamt hlutum í öðrum félögum og greiðslu í peningum vegna kaupa á 25% hlutafé í Hagkaupum árið 1998. Héraðsdómur féllst á það sjónarmið Gaums, að ekki væri réttmætt að miða verðmat 25% eignarhluta í Bónus við dagsetninguna 3. eða 19. júní 1998 heldur yrði að miða mat á eðlilegu verði við mun eldri dagsetningu þar sem tekið væri tillit til aðstæðna og aðdraganda samningsins.
Hitt varðaði viðskipti með hlutabréf í Arcadia Group PLC á árunum 2000 og 2001 og skattlagningu söluhagnaðar þegar hlutabréfin voru lögð inn í A Holding S.A. og skipt á bréfum í því félagi og hlutbréfum í Baugi. Fram kemur í dómnum, að A Holding hafi verið stofnað um eignarhald í hlutum í Arcadia Group. Félagið var stofnað í Lúxemborg í janúar 2001 af tveimur félögum skráðum til heimilis í pósthólfum á Bresku-Jómfrúareyjum en stjórnað af starfsmanni Kaupþings í Lúxemborg.
Gaumur hélt því fram að dótturfélag þess, Gaumur Holding AS, hefði í raun verið eigandi hlutabréfanna í Arcadia þegar þau voru lögð inn í A Holding. Héraðsdómur segir hins vegar, að gögn málsins sýni með fullnægjandi hætti að Gaumur hafi verið kaupandi hlutabréfanna í Arcadia en að hugmyndir hafi komið fram þegar liðið var á árið 2001 að það yrði skattalega hagstæðara að Gaumur Holding væri talinn eiga hlutabréfin þannig að ekki kæmi til skattgreiðslna á Íslandi þegar þau yrðu lögð inn í A Holding. Staðfesti dómurinn því, að forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra hefðu verið réttmætar.