Gert ráð fyrir afgangi í Eyjum

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Er þar gert ráð fyrir að  A-hluti sveitarsjóðs skili afgangi upp á rúmar 132 milljónir en þegar búið sé að taka tillit til reksturs B-hluta stofnana sé gert ráð fyrir að samanlagður afgangur verði upp á rúmar 14 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ, að gert sé ráð fyrir að útsvarstekjur á næsta ári verði tæplega 10% minni en rauntekjur útsvars vegna ársins 2009. Miðað er við að heildarframlög frá Jöfnunarsjóði verði 2% lægri en þau voru árið 2009, en borið saman við heildarframlög Jöfnunarsjóðs árið 2008 sé gert ráð fyrir tæplega 44% lækkun framlaga frá sjóðnum.

Á árinu 2009 var greidd inn á höfuðstól lána rúmlega 740 milljónir og hefur það hefur þau áhrif að næsta árs afborganir langtímalána lækka verulega. Lán aðalsjóðs Vestmannaeyjabæjar hafa því verið greidd niður um tæpar 2200 milljónir á þremur árum og eru heildarskuldir, lán, lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar við Fasteign hf., rúmlega 1,3 milljarður eða innan við 33 þúsund krónur á íbúa.

Gert er ráð fyrir að ráðist verði í fjárfestingar á árinu 2010 hjá A-hluta fyrir 519 milljónir og að teknu tilliti B-hluta stofnana er gert ráð fyrir að heildarfjárfestingar á árinu 2010 verði 889 milljónir. Ekki er gert ráð fyrir að tekin verði ný langtímalán vegna þessara framkvæmda, heldur verða þær alfarið fjármagnaðar með veltufé frá rekstri og handbæru eigin fé sveitarfélagins. Gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok, að afloknum framkvæmdum, verði rúmir 3,5 milljarðar.

Stærstu einstöku liðirnir í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir áið 2010 eru endurgerð upptökumannvirkis hafnarinnar (370 milljónir) og fjölnota íþróttahús (340 milljónir) og framkvæmdir vegna menningarsamnings og safnastarf. Ýmsar rekstrarlegar nýungar eru líka í fjárhagsáætlun svo sem 6 milljónir til gæðaeflingar í grunnskóla starfi og 20 milljónir til að mæta biðlistum eftir leikskólaplássi.

„Skýringin á núverandi velgengni er tvíþætt. Annarsvegar hefur vel árað í sjávarútvegi eftir langt erfitt skeið vegna sterks gengis krónunnar. Í Vestmannaeyjum eins og í öðrum sjávarbyggðum njóta allir bæjarbúa njóta góðs af þegar vel árar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum vegna hækkandi tekna og aukinna umsvifa. Hinsvegar er skýringin sú að á þenslutímanum hélt Vestmannaeyjabær að sér höndum í framkvæmdum og nýtti umhverfið á fjármagnsmarkaði til að hagræða í eiginarsafni sínu. Verðmætar eignir voru seldar og þeim snúið í peningalegar eignir. Lán voru greidd niður og áhersla lögð á niðurgreiðslu erlendra lána. Árið 2007 greiddi Vestmannaeyjabær niður seinustu erlendu lánin. Þá voru peningalegar eignir ávaxtaðar í öruggum en arðbærum sjóðum og inneignum. Það varð til þess að þrátt fyrir miklar fjármagnstekjur tapaði Vestmannaeyjabær ekki á bankahruninu. Nú þegar harðnar á dalnum og kreppir að í atvinnulífinu er rétti tíminn fyrir opinbera aðila að framkvæmda. Það er því ljóst að árið 2010 verður ár framkvæmda og uppbyggingar í Vestmannaeyjum," segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert