Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna ákveðinna öndunarfæralyfja breytist 1. janúar 2010. Breytingin felur í sér að ódýrustu innúðalyfin til meðferðar við astma og langvinnri lungnateppu verða með almenna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Er markmiðið að spara 2-300 milljóna króna útgjöld sjúkratrygginga.
Sjúkratryggingar Íslands segja, að ef læknir metur það svo að sjúklingur þurfi á meðferð með dýrari lyfjunum að halda sé hægt að sækja um lyfjaskírteini til stofnunarinnar. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði fyrir útgáfu lyfjaskírteinis.
Um 28 þúsund einstaklingar hafa fengið ávísað innúðalyfi s.l. ár og nam kostnaður sjúkratrygginga í þessum flokki 841 milljón króna árið 2008 og stefnir í 1034 milljónir á þessu ári að sögn Sjúkratrygginga.
Til þess að sjúklingar sem nú þegar eru á dýrari lyfjunum fái nægan tíma til að kynna sér breytingarnar og ræða við lækni verða lyfjaávísanir á lyf í ofangreindum lyfjaflokki gefnar út fyrir 1. janúar 2010 með óbreyttri greiðsluþátttöku til 1. apríl 2010.
Heimasíða Sjúkratrygginga Íslands