Hærri skattar hækka lánin um 13,4 milljarða

Hagsmunasamtök heimilanna hafa m.a. haldið samstöðufundi á Austurvelli.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa m.a. haldið samstöðufundi á Austurvelli. hag / Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) munu skattabreytingatillögur ríkisstjórnarinnar, þ.e. þingmál nr. 239 og 257, hafa í för með um kr. 13,4 milljarða hækkun á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna við gildistöku og a.m.k. 42 milljarða til viðbótar á lánstíma lánanna vegna hærri vaxtagreiðslna og síðari tíma verðbóta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HH.

Þau meta það svo að nærri helmingur heimila beri ekki auknar álögur vegna verulegrar kaupmáttarskerðingar og gríðarlegra hækkana á höfuðstól skulda. Samtökin hafa fullan skilning á aukinni tekjuöflunarþörf ríkisins í þessari stöðu, en það er algert forgangsverkefni að rjúfa bein tengsl skatta‐ og verðlagsbreytinga við þróun höfuðstóls lána heimilanna vegna áhrifa á verðbætur.

Telja samtökin það alveg ólíðandi, að fjármagnseigendur skuli hagnast á neyðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hafa það að markmiði að koma hagkerfinu út úr þeirri kreppu sem banka‐ og gjaldeyrishrun ollu.

Til að stuðla gegn þessu hafa Hagsmunasamtök heimilanna lagt til 4% þak á árlega hækkun verðbóta frá 1.jan.2008. Slík aðgerð myndi sporna gegn óhóflegum verðbótaáhrifum á skuldsett heimili af aðgerðum eins og skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Vilja samtökin hvetja til þess að samhliða afgreiðslu þessara mála verði afgreitt þingmál nr. 12 um vexti og verðtryggingu og þingmál nr. 7 um samningsveð. Hið fyrrnefnda er frumvarp þingmanna Framsóknarflokksins um 4% þak á verðbætur og hitt er frumvarp þingmanna úr öllum flokkum nema Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, sem takmarkar rétt lánveitanda til að sækja eignir lántaka upp í veð sín vegna íbúðalána. Telja samtökin brýnt að þessi mál verði bæði afgreidd sem fyrst sem lög frá Alþingi.

Tvö skattþrep í mesta lagi

Telja Hagsmunasamtök heimilanna að ekki verði hjá því komist fyrir ríkissjóð að afla frekari tekna í bland við niðurskurð. Samtökin telja þó að tillögur stjórnvalda um breytingar á skattkerfinu stuðli ekki endilega að því marki sem að er stefnt.

Benda samtökin á, að mörg skattþrep, hvort heldur tekjuskatts‐ eða virðisaukaskatts‐, vinna gegn gegnsæi og torvelda allt skattaeftirlit almennings. Telja samtökin því affarasælast að halda sig við tvö skattþrep fyrir virðisaukaskatt og tvö fyrir tekjuskatt. Varðandi tekjuskattinn verði lækkun skattprósentu fyrir lægstu tekjuhópana náð með annars vegar hækkun persónuafsláttar og hins vegar endurgreiðslu upp að vissu marki þess persónuafsláttar sem ekki verður nýttur. Varðandi virðisaukaskattinn, þá verði hætt við miðjuþrepið, en í staðinn verði skattprósenta hinna tveggja þrepanna hækkuð til að mæta því sem tapast við að hætt sé við 14% skattþrepið. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja síðan Alþingi til að nýta tækifærið og slá skjaldborg um heimilin.

Setja þarf þak á verðbætur til að stöðva sjálfvirka skuldahækkun sem veldur jafnframt aukningu peningamagns í umferð í hagkerfinu. Verðbólgudraugurinn verður ekki haminn fyrr en það myndast hvati hjá öllum í hagkerfinu að vinna gegn verðbólgu. Við núverandi aðstæður þrífst hluti hagkerfisins, þ.e. fjármálakerfið, á verðbólgunni og verðbótum sem henni fylgir. Með því að setja 4% þak á árlegar verðbætur, er þessi hvati tekinn í burtu. Að sjálfsögðu munu fjármagnseigendur mótmæla því eins og fíkill sem missir fíkniefnið sitt, en þegar meðferðinni verður lokið, þá munu fjármagnseigendur átta sig á því að allir eru betur komnir án verðtryggingarinnar, segir í tilkynningunni frá HH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert