Skuldbinding ríkisins vegna Icesave-reikninga Landsbankans gæti lækkað um tugi milljarða náist samningar við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á veðum sem Landsbankinn lagði þar inn í fyrra.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði þetta eftir viðskiptaráðherra í kvöld og kom fram, að í ráði sé að Seðlabanki Íslands kaupi þessi veð fyrir hátt í milljarð evra, jafnvirði 185 milljarða króna.
Landsbankinn lagði þessi veð inn í fyrra þegar íslenskir bankar voru að lenda í vandræðum með að útvega sér gjaldeyri og skuldaði því Seðlabankanum í Lúxemborg 1200 milljónir evra þegar hann féll í október í fyrra. Síðan þá hafa viðræður staðið yfir um þessi kaup.