Bíll fór út af Reykjanesbrautinni um klukkan sex í morgun, vegna fljúgandi hálku sem þar er. Ekki urðu slys á fólki, en bíllinn var óökufær eftir óhappið. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er búið að kalla út bíl til að salta veginn en því er ekki lokið. Ökumenn eru því beðnir um að fara varlega.
Að öðru leyti var nóttin róleg hjá flestum lögregluembættum á landinu, nema hvað á höfuðborgarsvæðinu var nokkur erill.
Ekki var um alvarleg afbrot að ræða, t.d. engar líkamsárásir eða innbrot sem vitað er um, að sögn varðstjóra. Mest var um að lögregla væri kölluð til vegna hávaða í heimahúsum, þar sem samkvæmi voru í gangi, en nú er prófum lokið í flestum skólum og yngra fólkið með meiri tíma aflögu.