Stjórn Lögreglufélags Suðurlands segist óttast afleiðingar þess mikla niðurskurðar, sem boðaður sé á næsta ári og boðuð fækkun lögreglumanna í Árnessýslu úr 5 lögreglumönnum í 4 á vakt komi niður á starfsöryggi þeirra svo ekki sé talað um öryggi íbúa og gesta sýslunnar.
Haldinn var fundur í vikunni með dómsmálaráðherra, lögreglustjórum, bæjar- og sveitarstjórum í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu. Í ályktun stjórnar Lögreglufélags Suðurlands er fagnað jákvæðu viðmóti ráðherra á fundinum vegna sérstöðu Árnessýslu í löggæslumálum.
Bent er á, að frá og með næstu áramótum verði 650 íbúar á bak við hvern lögreglumann í sýslunni. Landsmeðaltalið hafi í febrúar 2005 verið 424 íbúar á hvern lögreglumann. Þetta sé fyrir utan þann mikla íbúafjölda sem dveljist í rúmlega 6000 sumarhúsum og þá ferðamenn sem sækja heim þá vinsælu ferðamannastaði s.s. Þingvelli, Gullfoss og Geysi.
„Í Árnessýslu er einn hættulegasti og umferðaþyngsti þjóðvegur landsins. Umferð og þungaflutningar um Árnes- og Rangárvallasýslu á síst eftir að minnka með tilkomu nýrrar hafnar í Bakkafjöru. Þá er í Árnessýslu starfrækt réttargeðdeild ásamt stærsta fangelsi landsins og til stendur að annað fangelsi bætist við á nýju ári. Einnig vill stjórn félagsins benda á að umdæmin í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu eru gríðarlega vinsæl til útivistar af öllu tagi eru þau víðfeðm og mikil hálendi þar sem útköll geta tekið gríðarlegan tíma," segir í ályktun stjórnarinnar.
Hún skorar síðan á ríkisstjórn Íslands, Alþingi og þingmenn Suðurkjördæmis að finna lausn á þessu vandamáli hið fyrsta.