Krafa Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, um niðurfellingu rannsóknar á hendur sér fyrir meint innherjaviðskipti er fyrsta mál embættis sérstaks saksóknara fyrir dómi.
Að sögn Björns Þorvaldssonar, sem flytur málið fyrir hönd sérstaks saksóknara, má búast við að úrskurði málsins verði áfrýjað til Hæstaréttar – sama hver hann verður – enda hefur niðurstaða dómstóla úrslitaáhrif á það hvort sakamálsókn fylgi í kjölfarið.
Fjármálaeftirlitið hóf í nóvember á síðasta ári rannókn á því hvort Baldur hefði búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hlutabréf í Landsbankanum að andvirði 192 milljónir króna í september 2008. 7. maí á þessu ári var Baldri tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt, en á fundi FME 19. júní var ákveðið að endurvekja hana.
„Það kom fram ábending,“ segir Björn og kveður ekki gefið upp frá hverjum hún hafi komið, „um að hægt væri að afla frekari gagna á vissum stöðum. Er farið var að gera það komu fleiri hlutir í ljós sem rökstyðja þann grun að Baldur hafi vitað meira en hann gaf upp.“ Þessi gögn hafi ekki verið fyrir hendi þegar rannsókn var hætt. Málið var í kjölfarið sent embætti sérstaks saksóknara.
Lögmenn Baldurs, þeir Karl Axelsson og Arnar Þór Stefánsson hjá Lex, segja þetta ólögmætt. Ekki megi rannsaka sama málið tvisvar.
Gögnin sem enduropnunin byggist á eru t.a.m. fundargerðir samráðshóps um fjármálastöðugleika frá janúar til ágúst í fyrra. Í hópnum sátu fulltrúar forsætis- og viðskiptaráðuneytis, FME og Seðlabanka, sem og Baldur, sem var fulltrúi fjármálaráðuneytis. Í skýrslutöku yfir Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, hefur einnig komið fram að þau Baldur hafi í ágúst 2008 setið fund með bankastjórum Landsbankans þar sem þeir lýstu í trúnaði vandanum sem blasti við bankanum gæti hann ekki orðið við kröfum breska fjármálaeftirlitsins um yfirfærslu Icesave-reikninganna í breskt dótturfélag.
Talið er að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur liggi fyrir innan mánaðar og dómur Hæstaréttar, verði málinu áfrýjað, snemma næsta árs. Málflutningur þar sem krafist er niðurfellingar á kyrrsetningu á eignum Baldurs hefst þá fyrir héraðsdómi 12. janúar og því má búast við að á vormánuðum liggi fyrir hvort höfðað verði sérstakt sakamál. „Samþykki dómstólar kröfuna um niðurfellingu getur FME kannski tekið málið upp að nýju, en það verður bara að koma í ljós,“ segir Björn.
Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar er rannsókn málsins gegn Baldri vel á veg komin og búið að kalla til flest vitni, þótt einhver bætist alltaf við eftir því sem mál þróast. Hann segir fleiri mál tengd innherjaviðskiptum í rannsókn hjá embættinu, en kveðst ekki geta gefið upp hve mörg þau séu.
„Frá því FME hóf að kanna mál Baldurs í nóvember 2008 eru til ítarleg bréfaskipti þar sem er farið yfir hlutina og Baldur gefur skýringar með ítarlegum bréfum og fylgigögnum,“ segir Arnar Þór. Hann hafi svarað öllum spurningum satt og rétt. FME hafi haft öll gögn undir höndum og þar með einnig mátt hafa samráðsfundargerðirnar. Ekki fáist séð að neitt tilefni hafi verið til endurupptöku málsins, enda öll gögn fyrirliggjandi og engin ný komið fram fyrir stjórnarfund FME 19. júní. „Þeir stóðu Baldur ekki að því að segja ósatt, heldur ákváðu einfaldlega að stækka svið rannsóknarinnar eftir að henni var lokið og við teljum slíkt ekki hægt.“
Arnar Þór gerir ráð fyrir að málið verði kært til Hæstaréttar hafni Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu um niðurfellingu rannsóknar.