Tekjuspá ríkisins hækkar um 3 milljarða

mbl.is/Kristinn

Fjármálaráðuneytið hefur endurmetið tekjuáætlun næsta árs og reiknar nú með að tekjur ríkissjóðs verði rúmum 3 milljörðum kr. meiri á næsta ári en gert var ráð fyrir á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Fulltrúar ráðuneytisins greindu frá þessu á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun.

Að sögn Lilju Mósesdóttur, varaformanns efnahags- og skattanefndar, byggist þetta annars vegar á jákvæðari niðurstöðu endurskoðunar á forsendum þjóðhagsáætlunar og hins vegar hefur komið í ljós að innheimtar tekur ríkissjóðs á milli mánaðanna nóvember og desember eru talsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í venjulegu árferði aukast tekjur ríkissjóðs á þessum lokamánuðum ársins að jafnaði um 11%. Vegna efnahagskreppunar gerðu menn hins vegar ekki ráð fyrir að tekjuaukinn yrði svo mikill í ár en nú er komið á daginn að sú er raunin.

Megin ástæður þess að tekjur ríkissjóðs hafa verið að aukast að undanförnu eru þær að velta hefur fari vaxandi og einnig hafa fleiri notfært sér heimild til að taka út séreignasparnað sinn, sem skilar ríkissjóði auknum tekjum af staðgreiðslu tekjuskattsins. Talin er ástæða til að ætla að þessi þróun haldi áfram á komandi ári og hefur tekjuhlið fjárlaga ársins 2010 því verið hækkuð um 3 milljarða..

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert