Vilja að kolefnisgjald verði tímabundið

Meirihluti efnahags- og skattanefndar vill, að kolefnisgjald, sem á að leggja á bensín og dísilolíu, verði tímabundið og falli niður í lok ársins 2012. 

Í frumvarpi fjármálaráðherra, þar sem gert er ráð fyrir þessu gjaldi, segir hins vegar að kolefnisgjaldið sé liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.

Í áliti meirihluta efnahags- og skattanefndar er m.a. vísað til þess að á fundum nefndarinnar hafi komið fram sjónarmið um að kolefnisgjaldið kæmi ásamt öðrum fyrirhuguðum skatta og gjaldahækkunum illa við atvinnulífið og að mikilvægt væri að lögfesta kolefnisgjaldið ekki varanlega heldur að hafa það tímabundið eins og til stæði varðandi skatt á raforku og heitt vatn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert