Þótt Evrópulöggjöf um ábyrgð ríkja á innistæðum í bönkum verði breytt, hefur það enginn áhrif á Icesave-samninginn. Hann er óháður slíkum breytingum, jafnvel þótt þær séu Íslendingum í hag. Þetta kemur fram í áliti breskrar lögmannsstofu til fjárlaganefndar Alþingis. Fréttastofa RÚV sagði frá þessu í kvöldfréttum.
Fjárlaganefnd leitaði til bresku lögmannsskrifstofunnar Ashurst, með nokkrar spurningar um Icesave samningana.
Í álitinu segir að viðaukasamningurinn sem gerður var í október sé að mestu leyti hefðbundinn og sambærilegur öðrum alþjóðlegum lánasamningum. Hið óhefðbundna snúi að Icesave málinu sem slíku, að greiðslur haldi áfram eftir 2024 ef lánið verður ekki greitt að fullu, endurskoðunarákvæðinu og fleiru. Þessi atriði séu Íslandi í hag. Það sé ennfremur eðlilegt að gert sé út um ágreiningsmál fyrir breskum dómstólum.
Lögfræðistofan var beðin að svara því hvort mögulegar breytingar á Evrópulöggjöfinni, Íslandi í hag, um ábyrgð ríkisins á innistæðum geti haft áhrif á samninginn. Svarið er nei. Ashurst lögmennirnir telja að skyldur Tryggingasjóðs innstæðueigenda og ábyrgð ríkisins á honum standi, þrátt fyrir slíkar lagabreytingar sem kunna að vera gerðar í framtíðinni.
Enn á eftir að berast álit frá bresku lögmannsstofunni Michon de Reya um sama mál.