Ótvíræð skref fram á við í loftslagsmálum

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er eiginlega bæði," segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, aðspurð hvort hún sé ánægð eða vonsvikin með loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn, sem lauk í morgun.

„Það eru vonbrigði að ekki náðist lagalega bindandi samkomulag, sem var uppleggið. Þær væntingar sem gerðar voru til ráðstefnunnar í aðdraganda hennar voru miklar, að við fengjum raunverulegan samning fyrir heimsbyggðinga alla. Við höfum hannn ekki. En þetta er óneitanlega skref fram á við og leiðarljós. Vonandi með þeirri niðurstöðu að við getum landað lagalega bindandi samkomulagi á árinu 2010," segir Svandís.

Hún segir að tiltölulega fá ríki hafi haldið uppi kröftugri andstöðu við textann sem átti að verða að samþykkt fundarins. Hún nefnir þar sérstaklega Venesúela, Kúbu, Bólivíu, Súdan og fleiri lönd. Þrátt fyrir að haldnir hafi verið sáttafundir í hliðarherbergjum, leiddi það til þess að Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og fundarstjóri, þurfti að tilkynna í morgun að sameiginleg niðurstaða væri í ekki í kortunum.

Eftirminnilegasta ræðan frá forsætisráðherra Maldives-eyja

Svandís segir margar tilfinningaþrungnar ræður hafa verið haldnar, af leiðtogum þjóða sem mest eiga undir því að yfirborð sjávar hækki ekki. Eftirminnilegust hafi verið ræða forsætisráðherra Maldives-eyja (þar sem meðalhæð lands yfir sjó er einn og hálfur metri). Hann hafi grátbeðið bræður sína og systur í fyrrnefndum ríkjum að standa ekki í vegi fyrir því að áformin gætu orðið að veruleika.

Niðurstaðan varð engu að síður sú að leggja textann fram sem „samkomulag" fundarins en ekki „samþykkt". Það þýðir að í upphafi textans er ekki talað um alla fulltrúa á fundinum, heldur nöfn þeirra ríkja sem vilja skrifa undir hann sett í haus textans. Þau ríki sem ekki vildu setja sitt nafn á þann lista eru þá ekki skuldbundin.

„Þetta er ekki lagalega bindandi samkomulag og ekki eins metnaðarfullt að öllu leyti og maður hefði viljað sjá. En sannarlega skref í rétta átt, sem er til bóta. Þarna eru mjög stór þróunarríki að leggja til samdrátt í losun og þarna eru Bandaríkin að koma að borðinu í fyrsta sinn með fyrirheit um samdrátt. Það má því segja að þessir stóru drættir séu mikilvægastir, ef við berum þetta saman við Kyoto-bókunina, sem varðaði bara þrjátíu prósent losunar í heiminum, sem er mjög lítill hluti," segir Svandís.

Tvær gráður nokkuð sem Ísland hefur talað fyrir lengi

Aðspurð hvaða áhrif niðurstaða fundarins hafi á Ísland og Íslendinga segir Svandís að niðurstaðan um að stefna eigi að því að hlýnun jarðar fari ekki yfir tvær gráður að meðaltali, sé tala sem Íslendingar hafi talað fyrir mjög lengi. Ísland taki þátt í að styðja hana í þessu nýja Kaupmannahafnarsamkomulagi.

Ekkert hafi hins vegar breyst gagnvart Íslandi frá því sem áður hefur verið tilkynnt. Að Íslendingar verði þátttakendur í því losunarmarkmiði sem ESB setur sér, sem sé allt að 30% fyrir svæðið í heild.

„Okkar íslenska samninganefnd hefur haldið vel á málum þannig að okkar áherslumálum er haldið til haga, en sum þeirra eru þeirrar gerðar og þannig staðsett í textum að þau koma ekki til staðfestingar eða fullnustu fyrr en þegar lagalega bindandi samkomulag næst. Það er þegar fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur og vonandi nýtt alþjóðlegt samkomulag tekur við," segir Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert