Heimsins hæsti skattur

Hvergi í heiminum verður hærri virðisaukaskattur en hér á landi verði tillögur sem meirihlutinn í efnahags- og skattanefnd Alþingis lagði fram í gærkvöldi að veruleika.

Tillögurnar fela í sér að fallið verði frá fyrri hugmyndum ríkisstjórnarinnar um þriggja þrepa virðisaukaskatt. Vörur sem samkvæmt nýframlögðu frumvarpi áttu að bera 14% virðisaukaskatt, svo sem veitingastarfsemi og sykraðar vörur, munu áfram bera 7% vask.

Hins vegar hækkar hæsta skattþrepið í 25,5%, en ekki 25% eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Hvergi í heiminum er hærri virðisaukaskattur en 25%, en í Danmörku, Ungverjalandi, Svíþjóð, Noregi og Brasilíu bera ýmsar vörur svo háan vask.

„Það hefur komið fram mikil gagnrýni á aukið flækjustig með nýju skattþrepi,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar. Hann útilokar þó ekki að ráðist verði í fjölgun skattþrepa síðar meir.

„Á milli umræðna hafa komið fram upplýsingar um að virðisaukaskatturinn skili heldur hærri tekjum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu,“ segir Helgi. Samkvæmt útreikningum sérfræðinga hjá fjármálaráðuneytinu gefi þessi nýja leið ríkissjóði sömu tekjur og sú leið sem lögð var til í frumvarpinu.

Pétur H. Blöndal, sem situr í efnahags- og skattanefnd fyrir Sjálfstæðisflokk, segist gáttaður á breytingartillögum meirihlutans. Hann segir að mikil hætta sé á því að skatthlutfallið sé nú þegar orðið það hátt að aukið skatthlutfall þýði að ríkið fái minni tekjur en fengjust með lægra skatthlutfalli.

„Það eru ýmsar ástæður sem geta orðið til þess að skattstofninn minnkar. Það gerist t.d. með því að ákveðinn rekstur leggst af, annar rekstur minnkar, og skattsvik aukast,“ segir Pétur.

Þá gerir hann alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins. Nefndin hafi ekki fengið nema örfáar mínútur til að ræða breytingartillögurnar og þeim fylgdu hvorki umsagnir sérfræðinga né álit frá hagsmunaaðilum.

  • Leggja til að hæsta þrep hækki í 25,5% · Hvergi í heiminum er virðisaukaskattur hærri ·Aukið flækjustig gagnrýnt, segir Helgi Hjörvar ·Pétur H. Blöndal gáttaður á breytingunum
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert