Alþingi samþykkti í gær sjö ný lagafrumvörp, m.a. nýja matvælalöggjöf, frumvarp um að landið verði eitt skattumdæmi og frumvarp um breytingar á almannatryggingalögum sem felur í sér aukið eftirlit og þrengri reglur.
Auk þessara þriggja nýju laga samþykkti Alþingi breytingu á hegningarlögum um upptöku eigna, hryðjuverk, mansal og fleira, lög sem fela í sér gjaldtöku fyrir dvöl á sjúkrahóteli, breyting á lyfjalögum, breyting á skaðabótalögum sem snertir meðábyrgð starfsmanns við vinnuslys, breyting á lögum um úrvinnslugjald og breyting á lögum um vörumerki.
Frumvarp um nýja matvælalöggjöf var talsvert lengi til umfjöllunar í Alþingi, en málið var upphaflega flutt af Einari K. Guðfinnssyni fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Deilur urðu um málið á fyrri stigum, en við atkvæðagreiðsluna í gær var ágæt samstaða um málið. 35 þingmenn samþykktu frumvarpið, enginn var á móti, en tveir þingmenn sátu hjá. Þetta voru Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari þingmenn Hreyfingarinnar.
Lögin fela í sér að Ísland gerist aðili að matvælalöggjöf Evrópusambandsins með þeirri undantekningu að áfram verður innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum.
Fundur hefst á Alþingi kl. 11 í dag og þá eru horfum á að a.m.k. fimm frumvörp verði samþykkt sem lög, m.a. frumvarp um orku- og auðlindagjöld.