Lög um heimild til samninga um álver í Helguvík voru samþykkt við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun með 39 atkvæðum gegn 1. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hrósaði ríkisstjórninni þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu.
„Herra forseti, ég vil bara hrósa ríkisstjórninni hæstvirtri fyrir það að reisa álver," sagði Pétur.
Eini þingmaðurinn, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, var Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. Fimm þingmenn Vinstri grænna, þar á meðal ráðherrarnir Álfheiður Ingadóttir og Katrín Jakobsdóttir, sátu hjá ásamt einum þingmanni Framsóknarflokks og einum þingmanni Hreyfingarinnar.
Frumvarpið var lagt fram vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) við núgildandi lög. Annars vegar er um að ræða athugasemd um gildistíma samningsins og hins vegar athugasemd um frávik varðandi stimpilgjald.