Umhverfisskattar lögfestir

Lög um umhverfis- og auðlindaskatta voru samþykkt á Alþingi í dag með 30 atkvæðum stjórnarliða gegn 24 atkvæðum stjórnarandstæðinga, sem gagnrýndu lagafrumvarpið harðlega í atkvæðagreiðslunni.

Samkvæmt lögunum verður m.a. lagt 2,90 króna kolefnisgjald á hvern lítra af gas- og dísilolíu og 2,60 króna gjald á hvern lítra af bensíni, 2,70 króna gjald á hvern lítra flugvéla- og þotueldsneytis og 3,60 kr. á hvert kíló af svartolíu.   Þá leggst 0,12 króna skattur á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2% skattur á smásöluverð af heitu vatni. Þessi gjöld eiga að falla niður í árslok 2012. 

Kolefnisgjaldinu er ætlað að skila 2,5 milljörðum í ríkissjóð og auðlindaskattar sem nema tæplega 2 milljörðum króna, þar af greiðir stóriðjan um 1,6 milljarða.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þetta frumvarp væri úlfur í sauðagæru. Þarna væri verið að leggja á einfalda neysluskatta en ekki skatta á auðlindir. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði að þetta væri mikið framfaramál. Með því fengi ríkissjóður arð af auðlindum. Álagningin létti þörf fyrir hækkun tekjuskatts á almenning.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði frumvarpið fela í sér aðför að ferðaþjónustunni og það kæmi til með að hækka vöruverð á landsbyggðinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert