Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn standi á miklum tímamótum um þessar mundir. Valdþreytu hafi verið farið að gæta í flokknum alllöngu fyrir hrun og nú sé hafið mikið starf til þess að endurheimta það traust sem flokkurinn hafi glatað í alþingiskosningunum í vor.
Bjarni segir í ítarlegu viðtali við Sunnudagsmoggann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi glatað trausti fólks vegna þess að grundvöllur tilverunnar hjá svo mörgum hafi gjörbreyst.
„Það var sótt að öryggi heimilanna í þessari byltu sem við tókum í fyrra og fyrir það var Sjálfstæðisflokknum refsað. Það tel ég vera skiljanlegt, að vissu marki, en vil þó árétta, að ég tel að ábyrgðin á hruninu liggi mjög víða, en hún lá að sjálfsögðu m.a. hjá stjórnvöldum,“ segir Bjarni.Formaðurinn er afdráttarlaus í afstöðu sinni til Icesave og segir m.a.: „Sjálfstæðisflokkurinn mun greiða atkvæði gegn Icesave-frumvarpinu og reyna að fella það. Það má ekki samþykkja þetta frumvarp.“ Hann segist aldrei munu samþykkja að krafan um um úrlausn hlutlausra dómstóla í Icesave-málinu sé flótti frá skuldbindingum Íslendinga.
Bjarni segir að íslenskum hagsmunum sé best borgið utan ESB.
Sjá nánar samtal við Bjarna Benediktsson í Sunnudagsmogganum í dag.