Vegrið hefði bjargað

Vegrið hefði mögulega getað komið í veg fyrir banaslys sem varð á Hafnarfjarðarveginum við Arnarnesbrú í gærmorgun. Tveir létust og einn slasaðist hættulega í hörðum árekstri tveggja bíla.

„Það verður að teljast líklegt að vegrið hefði varnað því að bílinn fór yfir á öfugan vegarhelming,“ segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Hann segir að rannsóknarnefndin muni leggja til að vegrið verði sett upp á þessum vegakafla og víðar. „Miðað við öryggiskröfur þær sem gerðar eru í dag hugsa ég að vegrið verði sett upp miklu víðar.“

Rætt um vegrið á kaflanum

Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, tekur undir með Ágústi um að vegrið hefði getað komið í veg fyrir þetta alvarlegt slys. Hann segir að rætt hafi verið um að setja upp vegrið á vegarkaflanum þar sem slysið varð.

Orsakir slyssins eru enn í rannsókn, en svo virðist sem ökumaður Suzuki-jepplings hafi misst bifreið sína yfir á öfugan vegarhelming um klukkan tíu í gærmorgun. Að sögn Ágústs var hált í köntum er hann kom á vettvang tuttugu mínútum eftir að slysið varð.

Jepplingurinn lenti framan á tiltölulega stórum Benz-leigubíl sem kom á móti. Ökumenn beggja bílanna létust við áreksturinn og farþegi leigubílsins slasaðist mikið. Hann hlaut alvarlega höfuðáverka og er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans, samkvæmt upplýsingum frá lækni.

Jónas segir það vera tiltölulega ódýrt að setja upp vegrið miðað við margar aðrar framkvæmdir og að þrátt fyrir niðurskurð sé lögð áhersla á ódýrar framkvæmdir sem geti bjargað mannslífum. Umrætt slys auki líkurnar á að vegrið verði sett upp á Hafnarfjarðarvegi þar sem slysið varð.

Sextán látnir í ár

Sextán einstaklingar hafa látist í umferðinni hér á landi það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu. Árið 2008 var óvenjugott þegar horft er til fjölda látinna í umferðinni, en þá létust 12 í umferðarslysum hér á landi. Árið þar áður létust 15, en árið 2006 lést 31 einstaklingur í umferðinni á Íslandi.

Frá árinu 2001 og til og með ársins 2005 létust á milli 19 og 29 einstaklingar árlega í umferðinni hér á landi. Aldrei hafa jafn margir látist í umferðinni og árið 1977, eða 37 einstaklingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert