Áætlað er að 33 þúsund launþegar séu með tekjur yfir 2,4 milljónir á ári og vinni hjá fleiri en einum vinnuveitenda. Langflestir í þessum hópi fá á sig leiðréttingu í álagningu eftir á. Þetta kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á þessu í umræðum um frumvarpið. Hann sagði að betra hefði verið að byggja á fyrirframgreiðslukerfi eins og var gert meðan sérstakur tekjuskattur var lagður á. Það kerfi sem frumvarpið byggði á kæmi til með að valda fólki og fyrirtækjum verulegum óþægindum.
Birkir Jón gagnrýndi harðlega frumvarpið og hvernig staðið væri að undirbúningi málsins. Hann sagði ljóst að framkvæmd skattlagningarinnar yrði erfið og ýmislegt gæti farið úrskeiðis í upphafi. Hann sagði að kostnaður við breytingarnar væri vanmetinn í umsögn fjármálaráðuneytisins.