Áfram bannað að hækka laun þingmanna

Þingfundur stóð á Alþingi fram til hálf þrjú í nótt.
Þingfundur stóð á Alþingi fram til hálf þrjú í nótt. Heiðar Kristjánsson

Meirihluti efnahags- og skattanefndar leggur til að bann við hækkun launa sem heyra undir Kjararáð nái einvörðungu til ráðherra og alþingismanna. Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, á þó ekki von á að laun annarra hópa verði hækkuð á næsta ári.

Horfur eru á að Alþingi samþykki eftir helgi frumvarp sem framlengir bann við launahækkunum hópa sem heyra undir Kjarráð fram til 30. nóvember á næsta ári. Í árslok 2008 voru samþykkt lög sem gerðu Kjarráði að lækka laun um 5-15% og jafnframt var ráðinu bannað að hækka laun á árinu 2009.

Við umfjöllun í nefnd komu fram þau sjónarmið að Kjararáð þyrfti að hafa svigrúm til að gera breytingar á launakjörum einstakra hópa til samræmis við aðrar launabreytingar. Þess vegna var ákveðið að bann við launahækkunum ætti eingöngu að ná til ráðherra og alþingismanna. Helgi sagðist ekki gera ráð fyrir að Kjararáð færi að hækka laun annarra. Þær forsendur sem legið hefðu að baki ákvörðunum sem teknar voru í árslok 2008 ættu enn við.

Stjórnarandstæðingar í nefndinni gagnrýndu frumvarpið og bentu á að með því væri vegið að sjálfstæði dómsvalds og m.a. gengið gegn athugasemdum sérstakrar nefndar á vegum Evrópusamtaka dómara frá maí 2009 og alþjóðasamtaka dómara frá október 2009. Verið væri að eyðileggja launakerfi ríkisins því að kjararáð tæki hvort sem er mið af launaþróun. Málið væri ekki einungis táknræn aðgerð ríkisstjórnarinnar heldur allt að því lýðskrum.

Þingfundir stóð til hálf þrjú í nótt. Lengstu umræðurnar fóru fram um skattamál ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert