Flugsamgöngur úr skorðum

Flugi vélar Icelandair frá New York hefur verið frestað um sólarhring vegna óveðurs í borginni. Mikil röskun hefur orðið á flugsamgöngum í Bandaríkjunum. Snjókoman er ein sú mesta í áratugi á austurströnd Bandaríkjanna og víða er um 40 cm jafnfallinn snjór.

Snjókoman á austurströnd Bandaríkjanna hefur haft víðtæk áhrif. Samgöngur á lofti og á landi eru úr skorðum. Venjulega er þessi helgi ein mesta verslunarhelgi ársins, en margir hafa kosið að vera heima til að forðast vandræði. Um fjórðungur Bandaríkjamanna búa á svæði þar sem þessi mikla snjókoma nær til.

En það er ekki bara í Bandaríkjunum þar sem mikil vandræði eru vegna kulda og snjókomu. Allt flug hefur legið niðri í Manchester á Englandi. Búið er að fella niður allar ferðir um Ermasundsgöngin á morgun, þriðja daginn í röð.

Víða á meginlandi Evrópu eru mikil vandræði vegna kulda. Fólk sem á hvergi höfði sínu að halla hefur frosið í hel. Yfirvöld reyna að leita að fólki sem býr á götunni og koma því í öruggt skjól.

Snjómokstur í Washington.
Snjómokstur í Washington. JONATHAN ERNST
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka