Mildi að ekki fór verr

Ökumaður og farþegi hans voru handeknir á Fífuhvammsvegi.
Ökumaður og farþegi hans voru handeknir á Fífuhvammsvegi. mbl/RAX

Ökumaðurinn sem handtekinn var um hádegisbilið í dag eftir mikla eftirför í Kópavogi, keyrði á fjóra lögreglubíla. Eftirförin hófst í Hafnarfirði en þar veittu lögreglumenn eftirtekt bíl sem stolið var í nótt. Ökumaðurinn keyrði á ofsahraða og varð lögreglan að keyra á bílinn til að stöðva hann. 

Bílþjófurinn er maður um þrítugt og hefur hann oft komið við sögu hjá lögreglu. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum og ók um Hjallahraun, Bæjarhraun, Flatahraun og Suðurhraun áður en hann fór inn á Reykjanesbrautina og hélt förinni áfram í norðurátt. Þar ók maðurinn bæði á ofsahraða og að hluta til á öfugum vegarhelmingi áður en leið hans lá inn á Arnarnesveg og síðan Smárahvammsveg og Fífuhvammsveg. Þaðan lá för um Lindahverfi og lauk eftirförinni á mótum Fífuhvamms- og Hlíðardalsvegar, þar sem lögreglan ók á bíl ökufantsins og stöðvaði hann með þeim hætti.

Þykir mildi að ekki fór verr því akstur mannsins var vítaverður, að sögn lögreglu. Tveir lögreglumenn leituðu á slysadeild eftir eftirförina. 3-4 lögreglubílar er misskemmdir eftir þetta, einn þó sýnu mest.

Ökufanturinn keyrði einnig á tvo fólksbíla, þar af annan á bílastæði í Smáralind. Víst er að maðurinn braut ótal greinar umferðarlaganna með þessum vítaverða akstri og stefndi fjölda vegfarenda í mikla hættu. Hann er nú í haldi lögreglu og einnig farþegi sem var með honum í bílnum, kona á þrítugsaldri. Ökumaðurinn var í annarlegu ástandi að sögn lögreglu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert