Skemmdir vegna óveðurs í Eyjum

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. Rax / Ragnar Axelsson

Mjög slæmt veður er nú í Vestmannaeyjum. Lögregla hefur þurft að sinna nokkrum útköllum vegna veðursins, sem hefur farið versnandi í morgun. Fiskikar fauk á bíl nú í morgun og braut í honum rúðu og skemmdi. Þá fauk vinnupallur niður, án þess að skemma nokkuð þó. Einnig fauk hraðbátur af kerru og skemmdist.

Lögreglan beinir því þeim tilmælum til fólks að festa, eða ganga tryggilega frá hlutum sem það veit að eru lausir utandyra og gætu farið af stað. Gengur vindurinn á með sterkum hviðum.

Að öðru leyti hefur verið rólegt hjá flestum lögregluembættum á landinu í nótt og í morgun. Þó þurfti lögreglan á Suðurnesjum að hafa afskipti af tveimur uppákomum á og við skemmtistaði í Reykjanesbæ í nótt. Þar urðu tvær minniháttar líkamsárásir, en í öðru tilfellinu var árásarmaðurinn færður á lögreglustöð. Búið er að taka af honum skýrslu og hefur honum verið sleppt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert