Niðurstöður loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn eru jákvæðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þótt skrefið sé lítið, að mati Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Svo segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu vegna ráðstefnunnar.
Í tilkynningunni segir m.a: „Ísland hefur burði til að vera fyrirmyndarríki í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum vegna notkunar endurnýjanlegrar orku og mikilla möguleika á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og einnig vegna fjölmargra áhugaverðra verkefna á sviði loftslagsvænnar tækni og útflutnings á þekkingu. Margar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru auk þess hagkvæmar eða hafa annan ávinning í för með sér, s.s. minnkun á heilsuspillandi mengun og endurheimt landgæða. Halda þarf til haga því sem vel hefur verið gert á sviði loftslagsmála á Íslandi og grípa til aðgerða til að minnka nettólosun þar sem þess er þörf.
Ljóst er þó að aðgerðir Íslands til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda mega sín lítils nema þær séu hluti af hnattrænu átaki til lausnar loftslagsvandanum. Þátttaka í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er hornsteinn í loftslagsstefnu Íslands og íslensk stjórnvöld munu vinna að því að koma á bindandi samningi um aðgerðir í loftslagsmálum í kjölfar niðurstöðu Kaupmannahafnarfundarins.“