„Ætti að vísa út í hafsauga“

Heiðar Kristjánsson

Þriðja og síðasta umræða um tekjuöflun ríkisins fer nú fram á Alþingi. Þar sem of skammt var um liðið síðan lagafrumvarpið var lagt fram var samþykkt afbrigði til þess að hægt væri að fjalla um málið í dag.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa farið mikinn um það að með lagafrumvarpinu væri verið að flækja skattkerfið. „Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á ferli þess flokks í þessum efnum. Sjálfstæðisflokkurinn rak hér margþrepa tekjuskattskerfi um langt árabil. Þar voru þrepin hins vegar öfug við það sem menn þekkja víðast hvar í heiminum. Lægstu þrepin voru nefnilega fyrir fólkið með hæstu tekjurnar,“ sagði Helgi og tók fram að það hefði aldrei vafist fyrir Sjálfstæðismönnum að flækja skattkerfið hérlendis.

Tryggi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ræðu Helga fróðlega og miðast að því að blekkja landslýð um það að verið sé að innleiða þriggja þrepa skattkerfi eins og þekkist á hinum Norðurlöndunum. Sagði hann alla munu borga hærri jaðarskatta eftir breytinguna og hvatinn til að hækka í tekjum minnka.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði ljóst að taka þyrfti á þeim vanda að þriðjungur tekja ríkisins hefði horið. Sagði hún þingmenn Framsóknarflokks hins vegar ósátta við boðaðar breytingar á skattkerfinu. Benti hún að markmiðið með núverandi skattkerfi hefði verið að skapa staðgreiðslukerfi sem væri einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Nýja kerfið væri hins vegar flókið, erfitt fyrir fólk að skilja það og óaðgengilegt, auk þess sem það stuðli ekki að auknum jöfnuði.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, tók fram að hann væri ekki sammála því að kerfið myndu virka vinnuletjandi á fólk. Hins vegar væri augljóst að heimilin munu illa þola auknar skattahækkanir.

„Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram og hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar,“ sagði Þór.

Benti hann á að skattabreytingarnar væru illa unnar og  á miklum hraða. Sagði hann  líkur á því að mistök verði gert í upphafi næsta árs. „Erfitt að reisa við skattkerfi sem fer illa af stað, það tapar trúverðugleika,“ sagði Þór.

„Ríkisstjórn Íslands er að dýpka þá kreppu sem við stöndum frammi fyrir og í því felst mikil ábyrg,“ sagði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann gagnrýndi skattkerfisbreytingarnar.

„Við höfum ítrekað varað við þeirri efnahagsstefnu sem birtist í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, því reynslan sýnir að tilraunir til þess að skattleggja sig út úr þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í eru allt að því dæmdar til að misheppnast. Hætta á því að samdráttur aukist með hækkandi sköttum,“ sagði Illugi og tók fram að skattkerfisbreytingarnar myndu auka líkurnar á landflótta Íslendinga.
 
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þetta og benti á að umbyltingin á skattkerfi þjóðarinnar væru til þess gerðar að dýpka kreppuna hérlendis til muna. Hann gagnrýndi einnig þann asa sem einkenndi málið sem ykju líkur á því að mistök væru gerð. „Þessum skattabreytingum ætti að vísa út í hafsauga, en reglur Alþingis leyfa ekki að hlutirnir séu orðaðir með þeim hætti,“ sagði Höskuldur og hvatti til þess að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til áframhaldandi meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert