Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í minnisblaði til utanríkismálanefndar Alþingis að Bretar hafi sýnt yfirgang í samskiptum við Íslendinga vegna Icesave-málsins og beitt sér gegn Íslendingum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).
Í minnisblaðinu segir Ingibjörg að fljótlega eftir yfirtöku ríkisins á Glitni hafi verið rætt um hvort leita ætti til AGS eftir aðstoð. Ingibjörg hafi rætt við starfssystkin sín í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi og ekkert fengið nema jákvæð viðbrögð.
Í lok október, eftir að viljayfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um efnahagsáætlun með AGS lá fyrir, hafi annað hljóð verið komið í strokkinn.
Úr öllum áttum hafi þá fengist þau skilaboð að ef fundin væri lausn í Icesave-deilunni myndi það greiða fyrir aðstoð frá AGS og öðrum ríkjum.
Loks segir Ingibjörg að þótt fallist hafi verið á að fella inn í viljayfirlýsingu stjórnvalda til AGS tilvísun til Brussel-samkomulagsins vegna Icesave-málsins, hafi hún litið svo á að í því fælist einungis pólitísk yfirlýsing.
Í minnisblaði Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að með Brussel-viðmiðinu, sem m.a. fól í sér að tekið yrði tillit til efnahagslegra aðstæðna á Íslandi við ákvörðun skuldbindinga, hafi verið lagður nýr grunnur að viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-málið.
Geir segir sérstaklega mikilvægt að tekið var fram að stofnanir ESB og EES myndu taka áfram þátt í ferlinu sem færi fram í samráði við þær. „Þetta atriði var að mínum dómi afar mikilvægt því með því var undirstrikað að niðurstaðan yrði að vera pólitísks eðlis og ekki um að ræða hefðbundið skuldauppgjör.“
hlynurorri@mbl.is
Í álitinu segir að Icesave-samningurinn sé að mestu leyti sambærilegur við aðra alþjóðlega lánasamninga þótt vissulega sé Icesave-málið óvenjulegt. Alþingi hafði óskað eftir áliti lögmannsstofunnar á því hvort breytingar Íslendingum í hag hefðu áhrif á samninginn.
Álit um sama mál frá annarri breskri lögmannsstofu, Michon de Reya, hefur borist fjárlaganefnd og verður rætt í dag. Lögmannsstofan fór fram á að álit hennar yrði ekki gert opinbert, en að sögn Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, verður óskað eftir því við stofuna að aflétta megi leyndinni.