„Eiga að hljóta styrki fyrir að stíga ölduna“

Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen
Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen mbl.is/Ómar

„Sjómenn eru burðarás íslensks samfélags. Þaðan koma 60% af þjóðartekjunum. Það er árás á sjómenn og fjölskyldur þeirra að leggja til að sjómannaafslátturinn verði aflagður á fjórum árum,“ sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þriðju umræðu um tekjuöflun ríkisins sem nú fer fram á Alþingi.  

Árni rifjaði upp orð þingmanna meirihlutans þess efnis að verið væri að breyta skattkerfinu hérlendis til samræmis við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Benti hann á að sjómannaafslátturinn hefði nýverið verið hækkaður í Noregi. Hann væri hærri á öllum hinum Norðurlöndunum. „Það vantar sjómenn á Íslandi, jafnvel á bestu báta í bestu plássum. Það sýnir að staðan er alvarleg,“ sagði Árni og tók einnig fram að ekkert væri hugsað um menntun sjómanna. 

„Sjómenn eru ekki þátttakendur í velsæld samfélagsins. Þeir eru að stíga ölduna til þess að afla samfélaginu tekna. Þeir eiga að hljóta styrki fyrir að stíga ölduna. Það er verið að hjóla í eina stétt af fjölmörgum sem hafa sérréttindi. Þá á að fórna sjómönnum,“ sagði Árni og tók að yrði lagabreytingin að lögum þá myndi um hæl hefjast barátta fyrir að koma sjómannaafslættinum aftur á sem fyrst. 

„Það á að vera skylda okkar og metnaður að standa við bakið á sjómönnum. Þeir eru að vinna fyrir okkur og fyrir hag samfélagsins í heild meira en aðrir landsmenn.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert