Hafrannsóknastofnun segir, að ekki sé hægt að gera tillögu um upphafskvóta loðnu á grundvelli bergmálsmælinga, sem nú er nýlokið.
Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun fannst ungloðna vestan Kolbeinseyjarhryggjar allt vestur að landgrunni Grænlands. Lóðningarnar voru hins vegar víðast hvar mjög gisnar og engar þéttar torfur sáust.
Haustið 2008 fannst mikið af loðnuseiðum á þessum tíma og var vonast til að sá árgangur myndi skila sér sem 1-árs fiskur í mælingum þeim sem nú er lokið. Sú varð þó ekki raunin og fjöldi eins árs ungloðnu mældist einungis um 15 milljarðar. Segir stofnunin, að það sé verulega undir því marki að hægt sé að mæla með upphafskvóta fyrir vertíðina 2010-2011
Stórrar loðnu varð vart í litlu magni við og upp á landgrunnskantinum frá Langanesi og vestur undir Kolbeinseyjarhrygg. Veiðistofninn (2-3 ára fiskur) mældist um 140 þúsund tonn. Aflaregla í loðnu gerir ráð fyrir að 400 þús. tonn séu skilin eftir til að hrygna og segir Hafrannsóknastofnun, að því sé ekki unnt að leggja til loðnukvóta fyrir komandi vetrarvertíð á grundvelli þessara mælinga.
Undanfarin ár hefur ekki tekist að mæla stærð veiðistofns loðnunnar fyrr en í janúar eða jafnvel fyrri hluta febrúar. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson mun aftur halda til loðnurannsókna og mælinga snemma í janúar.