Engin straumhvörf með lögfræðiálitum

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að engin straumhvörf hafi orðið í Icesave-málinu með lögfræðiálitum, sem borist hafa frá tveimur breskum lögmannssstofum, Ashurst og Mishcon de Reya. Stefnt er að því að afgreiða Icesave-frumvarpið úr fjárlaganefnd á morgun.

„Þetta er ekki endanleg niðurstaða um lögfræðileg álitamál sem tengjast þessu máli enda var ekki við því búist," sagði Björn Valur. „Það hafa ekki orðið nein straumhvörf í málinu, sem er nú búið að ræða alveg í þaula." 

Börn Valur segir, að lögfræðistofurnar bresku séu nokkuð sammála um að um sé að ræða tiltölulega eðlilega samninga á milli þjóða. Það óvenjulega við samningana sé helst langur lánstími, að ekki þurfi að greiða af lánunum fyrstu sjö árin, vextir séu fastir og að greiðslur séu í samræmi við efnahagslegar forsendur. Þessi atriði séu öll frekar hagstæð Íslandi.

Í lögfræðiáliti  Mishcon de Reya er þeirri skoðun m.a. lýst að samningarnir séu hvorki skýrir né réttlátir. Björn Valur sagðist ekki átta sig á því hvaða atriði væru óskýr í samningnunum því öll grunnatriðin liggi fyrir: upphæðirnar, lánstíminn, vextirnir og hvað gerist ef ekki verður búið að greiða lánin upp árið 2024. 

Þá þætti engum Íslendingi réttlátt að þurfa að greiða þessar fjárhæðir en Björn Valur sagði það sitt mat, að ekki hefði verið hægt að ná lengra en með þeim samningum, sem nú liggja fyrir. 

Björn Valur sagði að í báðum lögfræðiálitunum kæmi fram, að ekki væri á vísan að róa ef Alþingi samþykkti ekki ríkisábyrgð á lánasamningana. Sagði Björn Valur, að þá myndu Bretar án efa höfða mál og væntanlega ekki láta sér nægja að krefjast lágmarkstryggingarinnnar, 20.887 evra vegna hvers Icesave-reiknings heldur allrar fjárhæðarinnar, sem var á reikningunum. 

Stenst stjórnarskrá

Þá sagði Björn Valur, að fjárlaganefnd hefði fengið skrifleg álit frá þremur lögfræðingum þar sem fram kemur að enginn vafi leiki á að Icesave-samningarnir og ríkisábyrgð vegna þeirra standist ákvæði stjórnarskrár. Um er að ræða sameiginlegt álit frá Björgu Thorarensen og Eiríki Tómassyni og álit frá Helga Áss Grétarssyni. 

Björn Valur sagði, að í samkomulagi sem gert var við stjórnarandstöðuna um meðferð Icesave-frumvarpsins, hafi verið kveðið á um að fjallað yrði um 16 tilgreind álitamál og að þriðja umræða um málið fari fram á Alþingi milli jóla og nýárs. Verið sé að ljúka umfjöllun um þessi atriði og væntanlega verði fjallað um þau síðustu á fundi nefndarinnar í kvöld. Miðað sé við, að fjárlaganefnd geti afgreitt frumvarpið til þriðju umræðu á morgun, sem er síðasti þingdagur fyrir jól. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert