Fjármálaráðherra segir bjartari horfur framundan

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi. Ómar Óskarsson

„Hæstvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar og einkum Sjálfstæðisflokksins hafa hér í umræðunni haft miklar áhyggjur af því að þessar aðgerðir í skattamálum kunni að hafa þau áhrif að auka á samdrátt í hagkerfinu. Ég tel að það séu ekki ástæður til þess að hafa þessar þungu áhyggjur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í þriðju umræðu um tekjuöflun ríkisins sem fram fór á Alþingi fyrr í dag.

Máli sínu til stuðning nefndi hann að þrátt fyrir fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar verði stig tekjuöflunar hins opinbera samt lægra en það hefur verið á umliðnum árum sem hlutfall af þjóðartekjum og til muna lægra en það er í mörgum nálægum löndum, s.s. á Norðurlöndunum.

„Í öðru lagi er það svo að ýmsir aðrir þættir hafa hér áhrif á eftirspurn í hagkerfinu," sagði Steingrímur og nefndi í því samhengi að hagstætt gengisstig krónunnar hefði þegar aukið útflutning. Sagði hann útlit fyrir lækkandi vexti og lækkandi verðbólgu. Sagði hann einnig ljóst að allt útlit væri fyrir því að  vaxtakostnaður ríkissjóðs á næstu árum verði milljarða tugum lægri en litið gat út fyrir að yrði framan af ári. Það svigrúm verði að fullu nýtt til að draga úr annars áformuðum skattahækkunum sem svo aftur komi hagkerfinu til góða.

„Þegar þessir hlutir eru allir saman hafðir í huga þá eru ágætar horfur á því að spár um það að viðsnúningur verði á íslenska hagkerfinu á næsta ári og við förum að sjá bata á síðara hluta ársins, að þær gangi eftir. Þannig að ég deili ekki þessari miklu svartsýni sem svífur yfir vötnum í ræðuhöldum stjórnarandstæðinga. Og þó að það sé um það bil svartasta skammdegið akkúrat þegar við eigum þessi orðaskipti þá er nú engu að síður ástæða til að muna eftir því að sól fer að hækka á lofti. Það eru að mörgu leyti bjartari horfur framundan í okkar efnahagsmálum.“

Um efni skattafrumvarpanna að öðru leyti sagði Steingrímur innleiðingu þrepaskipts tekjuskatts fela í sér kost frá sjónarhóli tekjujöfnunar. Sagði hann markmiðið með þessari breytingu vera þá að hlífa lægstu launum við sköttum. Lagði hann áherslu á að stefna ætti að því til framtíðar að lækka skattprósentuna á lægsti þrepi um leið og efnahagslegar aðstæður leyfðu.

Varðandi umræðuna um verðtryggingu persónufrádráttar sagði ráðherra það ekki hlaupa frá þingmönnum að skoða það ásamt með öðru á næsta ári hvernig þeim hlutum verið fyrirkomið í ljósi efnahagsaðstæðna og aðstæðna í ríkisfjármálum.

Varðandi sjómannaafslátt benti Steingrímur á að gefinn væri rúmur aðlögunartími og ekki farið inn í kjarasamninga á gildistíma þeirra. „Um tryggingagjald er það að segja að að sjálfsögðu er það ekkert fagnaðarefni að þurfa að hækka launatengd útgjöld, en atvinnulífið er þeirrar skoðunar að atvinnutryggingagjaldið eigi að bera kostnað af atvinnuleysi og það er það sem hér er lagt til grundvallar,“ sagði Steingrímur og tók fram að það væri forsvarsmönnum atvinnulífsins til hróss að þeir kiknuðu ekki undan ábyrgð sinni og vildu tryggja að hægt væri að greiða atvinnulausum bætur á komandi árum.

„Tekjuskattur lögaðila er hækkaður á nýjan leik í 18%. Það var ofrausn að mínu mati að lækka hann á síðasta ári. Fjármagnstekjuskattur einstaklinga er færður til betra horfs með upptöku frítekjumarks og prósentu sem er nær sem gerist í nálægum löndum. Hann verður áfram með því lægsta sem þekkist hér. Að lokum nefni ég auðlindagjaldið sem efnaðasti hluti samfélagsins mun á næstu árum leggja eitthvað af mörkum. Fólk sem hefur safnað miklum fjármunalegum eignum á undanförnum árum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að eftir sem áður og þrátt fyrir þessar breytingar þarf að leggja mikla vinnu á næsta ári í heildstæða yfirferð á skattakerfinu til að aðlaga það að breyttum veruleika og breyttu  efnahagslegu umhverfi á Íslandi. Það verður gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka