Þeirri skoðun er meðal annars lýst í ýtarlegu lögfræðiáliti frá bresku lögmannsstofnunni Mishcon de Reya, að samkomulagið um Icesave-skuldbindingarnar, sem gert var við Breta og Hollendinga í október, sé hvorki skýrt né sanngjarnt.
Fjárlaganefnd Alþingis óskaði eftir því að lögfræðistofan fjallaði um tiltekin álitamál, þar á meðal um hugsanlegar afleiðingar þess að Alþingi afgreiði ekki lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Lögfræðiálitið barst fyrir helgi og hefur leynd nú verið aflétt af því.
Lögmannsstofan segir, að hafni Alþingi lagafrumvarpinu kunni Ísland og Bretland að leita dómsúrskurðar. Niðurstaða slíks úrskurðar kunni að vera meira íþyngjandi en ákvæði Icesave-samkomulagsins og hugsanlega yrði Íslandi gert að greiða skuldbindingar að fullu án tafar. Hins vegar gæti slíkur málarekstur tekið langan tíma.
Þá kunni það að hafa aðrar fjárhagslegar afleiðingar fyrir Ísland ef lögin verða ekki samþykkt, þar á meðal á lánveitingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og aðra alþjóðlega lánafyrirgreiðslu. Á það verði íslensk stjórnvöld hins vegar að leggja mat.
Í álitinu, sem lögfræðistofan gerði að ósk fjárlaganefndar Alþingis, segir að að ganga megi út frá því að frá sjónarhóli Alþingis verði samkomulag í tengslum við Icesave að vera skýrt, pólitískt viðunandi og viðráðanlegt efnahagslega.
Mishcon de Reya segist ekki geta lagt mat á það hvað sé pólitískt viðunandi fyrir Alþingi. Hins vegar séu færð rök fyrir því í lögfræðiálitinu, að núverandi samkomulag, sem Alþingi er að fjalla um, sé hvorki skýrt né réttlátt. Þá sé það einnig skilningur lögfræðistofunnar, þótt hún hafi ekki gert sérstaka útreikninga, að samkomulagið kunni einnig að verða Íslendingum ofviða en leggja þurfi mat á greiðslugetu og áhrif afborgana á aðrar skuldbindingar Íslendinga og þarfir þjóðarinnar.
Í álitinu segir, að gera megi ráð fyrir að bresk og hollensk stjórnvöld hafi tekið þessa þætti með í reikninginn þegar þau hófu viðræðurnar við Íslendinga. Í viðræðum Mishcon de Reya við lögmannsstofuna Slaughter & May, sem kom fram fyrir hönd breska fjármálaráðuneytisins fyrr á þessu ári, hafi komið fram að þetta væri raunin. Hins vegar hafi sú tilfinning verið fyrir hendi, að Hollendingar væru nokkuð stífari.
Lögfræðistofan segir, að ef þessar ályktanir séu réttar megi aftur draga þá ályktun að núverandi Icesave-samningur, eða að minnsta kosti hlutar hans, byggist á einhverjum misskilningi.
Þetta stangist hins vegar á við þriðju ályktun lögfræðistofunnar, þá að bresk og hollensk stjórnvöld kunni að líta eða virðist líta á samninginn nú sem endanlega niðurstöðu.
Lögfræðistofan segir, að hafni Alþingi frumvarpinu eða fresti afgreiðslu þess feli það í sér að ætlunin sé að reyna að taka að nýju upp samningaviðræður við Breta og Hollendinga um málið til að reyna að ná fram hagfelldari niðurstöðu.
Séu Bretar og/eða Hollendingar tregir til að taka upp viðræður að nýju eða hafni því gæti komið upp erfið þráteflisstaða sem kynni að hafa pólitískar, diplómatískar, efnahagslegar og lagalegar afleiðingar.
Komi til dómsmála verði þau tímafrek og ómögulegt sé að spá fyrir um niðurstöðuna. Þess vegna geti það verið tvíeggjað sverð að vísa málinu til dómstóla.
Mishcon de Reya mælir með því að kannað verði hvort svigrúm sé til frekari viðræðna við Breta og Hollendinga um Icesave í ljósi hinna efnahagslegu staðreynda. Líta beri á það sem viðræður til að skýra tiltekin atriði frekar en viðræður um nýjan samning. Þá mælir lögfræðistofan með því, að slíkar viðræður fari fram í trúnaði í ljósi þess hve málið er pólitískt viðkvæmt.