„Af hverju fer ríkisstjórnin fram með ömurlegt skattkerfi sem enginn skilur? Það eru allir sammála um að það eigi ekki að fara út í svona skattabreytingar,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í þriðju umræðu um tekjuöflun ríkisins.
„Við stöndum frammi fyrir því að hér varð hrun, hér lækkuðu tekjur, útgjöld jukust. Við eigum að leita allra leiða til að koma hér aftur á stöðugleika, auka tekjur ríkisins og ná samstöðu meðal þjóðarinnar. Fjármálaráðherra hefur talað um að nú þyrftum við að standa saman, nú væri ekki tími fyrir pólitískar landvinninga,“ sagði Ragnheiður og tók fram að í því ljósi væri óskiljanlegt að ríkisstjórnin legði fram skattkerfi sem enginn skildi.
„Markmiðið er að koma á vinstri vitleysis skattkerfi, bara til þess að hægt sé að segja að skattkerfi sjálfstæðismanna hafi verið aflagt. Það er svo yfirgengilega sorglegt að fylgjast með þessu.“