Hættulega óskýrir Icesave-samningar

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Heiðar Kristjánsson

„Stjórnarandstaðan hefur eytt mörgum mánuðum í að benda á hversu ósanngjarnir samningarnir eru. Þetta er í raun staðfesting á þeim málflutningi," segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um nýbirta skýrslu bresku lögmannsstofunnar Miscon de Reya.

Í skýrslunni segir meðal annars að Icesave-samningarnir séu hvorki skýrir né sanngjarnir (e. neither clear nor fair). „Það er einnig skilningur okkar, þó við höfum ekki lagst í neina sjálfstæða útreikninga, að það geti einnig verið að þeir séu óviðráðanlegir. Í þessu samhengi ætti „viðráðanleiki" bæði að skoðast sem raunveruleg geta til þess að borga og áhrifin af því á getu Íslands til að standa við aðrar skuldbindingar og að mæta þörfum þjóðarinnar," segir einnig í skýrslunni frá Mischon de Reya, í lauslegri þýðingu. Mögulegt sé að gerð samninganna hafi byggst á einhvers konar misskilningi.

Höskuldur segir að málflutningur stjórnarandstöðunnar hafi skilað sér og þjóðin sé farin að átta sig. „Það er afar hættulegt fyrir þjóðarhagsmuni Íslendinga hversu óskýrir samningarnir eru, sérstaklega eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar síðan lögin voru samþykkt í ágúst. Allur vafi í málinu er túlkaður Bretum og Hollendingum í vil," segir Höskuldur.

Höskuldur vísar einnig í álit lögmannsins Matthew Collings, sem fylgir með áliti Mischon de Reya sem viðauki. Þar segi lögmaðurinn að samningurinn verði alltaf túlkaður samkvæmt orðanna hljóðan fyrir breskum dómstólum og í samræmi við bresk lög, alveg óháð því hversu ósanngjörn útkoman geti orðið fyrir íslenskan almenning.

Hann segir stórhættulegt að samþykkja lausn ríkisstjórnarinnar á Icesave og þar að auki hafi öllum málflutningi stjórnarþingmanna, og ekki síst Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, verið hrundið. Nú síðast hafi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hrakið það að fyrri ríkisstjórnir hafi skuldbundið Íslendinga í málinu og nú bendi Mischon de Reya á að líklega sé ekki betra að halda því fram að greiðsluskylda sé ekki til staðar, en ákveða engu að síður að ganga til samninga og borga. „Þeir benda á að það sé jafnvel verra fyrir Íslendinga að þeir viðurkenni ekki að þeim beri að greiða, en ætli samt að gera það," segir Höskuldur.

„Við skorum á þingmenn stjórnarmeirihlutans að lesa og kynna sér þau skjöl sem nú hafa komið fram og þær nýju upplýsingar sem við höfum verið að kalla. eftir. Ef þeir gera það er ég sannfærður um að enginn þeirra muni samþykkja þessa samninga," segir hann. Þingmenn þurfi að sjá þá bláköldu staðreynd að íslenskir þjóðarhagsmunir felist í því að samþykkja ekki samningana. Þar að auki gerist ekkert ef við samþykkjum þá ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert